Álftanes - Njarðvík, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn fyrr í dag gegn Njarðvík.

Byrjuðum leikinn vel og náðum forystu sem við héldum allan leikinn. Mikið var um opin færi þar sem sótt var á báða bóga. Vorum hættulegra liðið fram á við en mér fannst Njarðvík sterkara en við í návígjum og stöðunni maður gegn manni. Enn og aftur vorum við svolítið ragir við mótherjann sem var vissulega stæðilegri en við (í liði Njarðvíkur voru nokkrir á eldra ári).

Góðir spilakaflar og fjölbreyttur sóknarleikur (góð færanýting) skópu góðan 8-5 sigur. Mörk okkar gerðu Valur 3, Ívar 2, Gunnar 1 og Kristján 1.

Heilt yfir er ég nokkuð sáttur við frammistöðuna. Spilakaflar voru góðir og uppspil þokkalegt þrátt fyrir að möguleikar á að senda knöttinn hafi oft og tíðum verið of fáir. Nokkurn hreyfanleika skorti því hjá leikmönnum án knattar. Vorum einnig að svekkja okkur á utanaðkomandi þáttum sem við stjórnum ekki, þ.e. dómgæslu. Slíkt er aldrei vænlegt til árangurs og gengur ekki.

Getum enn bætt leik okkar og þurfum að halda áfram á sömu braut en með aðeins jákvæðara hugarfari. Minni á að í síðustu viku (í einu óveðursskotinu) var ég einmitt með erindi við ykkur um jákvætt hugarfar. Þurfum að taka slíkan fróðleik og færa hann inn í leik okkar.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Leiknir R., stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við Leikni R. í gær.

Nokkuð erfiðar aðstæður vegna vinds og ofankomu. Þekkjum það vel!

Lékum með sjö í liði (í stað átta) og á lítil mörk. Það síðarnefnda er aðeins öðruvísi og því var ekki um sama markaregnið að ræða og í Faxaflóamóti.

Mér fannst vera nokkurt jafnræði með liðunum úti á vellinum þrátt fyrir að við höfum aðallega séð um að skora mörkin. Settum þrjú í fyrri hálfleik og tvö í hinum síðari (Ívar 3 og Valur 2) og fengum á okkur eitt. Um opinn leik var að ræða. 

Mér fannst nokkuð gott flæði á knettinum, náðum ágætu uppspili, og sköpuðum okkur full af góðum marktækifærum. Hefði þó mátt vera fleiri möguleikar fyrir manninn með knöttinn í uppspili, þá einkum inni á miðju. Þá fannst mér nokkuð áberandi hvað við notuðum markvörðinn lítið, t.d. þegar við vorum að vinna knöttinn aftarlega á vellinum. Vorum alltof oft að koma okkur í vandræði með pressu í bakið með því að reyna snúa í stað þess að senda á markvörð, draga sig út og leysa þannig úr pressunni, þ.e. með því láta knöttinn vinna fyrir sig í stað þess að reyna hnoðast með knöttinn í gegnum manninn. Það er það sem er kennt og lagt upp með (að láta knöttinn vinna fyrir sig)! Þá fannst mér nokkrum sinnum vera furðubragur á innköstum okkar aftarlega á vellinum, þ.e. enginn leikmaður tók dýpt og þannig vorum við í raun galopnir. Kom þó ekki að sök. Þurfum að fara yfir þessi atriði og bæta fyrir næsta leik.

Heilt yfir nokkuð góður leikur þrátt fyrir að úrslitin, 5-1, hafi e.t.v. verið fullstór miðað við gang leiksins. Þurfum einnig að endurskoða það að leika 3-3 varnarlega, mögulega hentar það okkur ekki. Alltof stór svæði opnuðust inni á miðsvæðinu varnarlínur voru ekki samstíga, t.d. með því að mynda 3-2-1 (jólatré).

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Breiðablik, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum leikinn í gær við Breiðablik sem var okkar síðasti leikur í Faxaflóamóti.

Um hörkuleik var að ræða sem háður var erfiðar aðstæður vegna veðurs, þar sem sól var aðra mínútuna og snjókoma og haglél hina næstu. Kom þetta niður á gæðum leiks.

Við hófum leikinn betur og leiddum framan af. Breiðablik var þó aldrei langt undan og tveir hávaxnir og spyrnufastir drengir gerðu okkur erfitt fyrir. Stóð 3-2 í leikhléi, okkur í vil. Þegar á leikinn leið náðu Blikar að sigla fram úr og höfðu sigur úr býtum, 7-10. Mörk okkar gerðu Ívar 3, Gunnar 2, Emilía 1 og Vera 1 (er vonandi með þetta rétt). Að mati okkar þjálfara var ekki um sanngjarna niðurstöðu að ræða og svo sannarlega vorum við ekki síðra liðið. Aflmunir réðu úrslitum, að okkar mati.

Heilt yfir er ég (við) ánægður frammistöðuna og það voru fínir spilakaflar í þessu. Mér fannst uppspil gott og við sköpuðum fullt af marktækifærum sem sum hver hefðu mátt nýtast betur. Að þessu sinni opnuðust glufur inni á miðsvæðinu í varnarleik okkar og við áttum í vandræðum með stoppa í þau göt. Af þeim sökum fengum við á okkur skyndisóknir og fullt af skotum á mark. Komu flest mörk Blika með langskotum sem erfitt var að ráða við þar sem þéttleiki var ekki nægjanlegur. Því fór sem fór.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Þróttur Vogum, stutt umfjöllun um æfingaleik

Sæl, öllsömul.

Ætla að fjalla örstutt um leikinn fyrr í dag við Þrótt Vogum.

Um hörkuleik var að ræða þar sem við vorum svolítið lengi í gang og fengum snemma leiks á okkur ódýr mörk. Náðum að vinna okkar smám saman inn í leikinn og vorum, að mínu mati, mun betra liðið á vellinum lungann af leiktímanum. Náðum þó ekki að nýta okkur það til fullnustu og af þeim sökum var leikurinn í járnum allan tímann, þar sem við vorum að elta.

Mörk okkar voru mörg hver góð, sum reyndar alveg frábær, og það var gaman að fylgjast með ykkur í dag, þrátt fyrir að við næðum ekki fram því besta. Uppspilið var gott og við náðum að skapa okkur urmul marktækifæra. Hins vega nýttust góð færi ekki vel á meðan síðri færi nýttust vel og úr urðu mörk. Bæði lið gerðu fimm mörk en mörk okkar gerðu: Ívar 1, Kristján 1, Kristófer 1, Mist 1 og Vaka 1 (er vonandi með þetta rétt).    

Loks endaði þetta með skemmtilegri vítaspyrnukeppni sem er svolítið nýtt fyrir ykkur. Það er hörkupressa að taka vítaspyrnu og ekki auðvelt verk. Gildir það bæði um unga sem „aldna“. Góð reynsla fyrir ykkur hins vegar.

Heilt yfir er ég nokkuð sáttur við frammistöðuna, þrátt fyrir að við höfum ekki byrjað leikinn vel og varnarleikur okkar hafi verið slakur framan af. Það batnaði þegar leið á leikinn og iðkendur náðu að halda yfirvegun, að mestu leyti, og bæta sig þegar á leið.

Birgir Jónasson þjálfari.