Álftanes - Valur, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti

Sæl, öllsömul .

Nokkur orð um leik B-liðsins í dag gegn Val 2 í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti sem fram við hreint frábærar aðstæður á Álftanesi.  

Hörkuleikur og margar af okkar stúlkum (og beggja liða) að stíga sín fyrstu skref í 11 manna knattspyrnu. Það var jafnræði með liðum í byrjun leiks. Smám saman náðum við hins vegar yfirhöndinni og gegn gangi leiksins skoraði Valur eina mark leiksins. Markið kom úr góðu skoti.

Fengum góð marktækifæri í báðum hálfleikum til að jafna metin (og komast yfir fyrr í leiknum) en það tókst því miður ekki. Um tíma í síðari hálfleik var um algjöra einstefnu að ræða en inn vildi knötturinn ekki. Skall oft hurð nærri hælum við mark Vals, t.d. áttum við skot í markslá úr góðu færi. Þá áttum við mikið af skotum á markið, án þess að þau kæmu beinlínis úr marktækifærum.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan góð og í raun vonum framar og ekki var að sjá að stúlkur væru að leika í fyrsta sinn á stórum velli. Það voru liprir kaflar hjá okkur, gott spil og stúlkur voru baráttuglaðar og gáfu allt í það að reyna jafna (og auðvitað vinna leikinn). Er ánægur með hve mörg markskot við áttum og hvernig við vorum sífellt að reyna. Eigum auðvitað langt í land á mörgum sviðum og þurfum að æfa atriði eins og hornspyrnur og önnur föst leikatriði, bæði sóknar- og varnarlega. Þá er nokkuð ljóst að við þurfum að æfa markskot á næstu vikum ?.

Fyrir mestu er að leikurinn var skemmtilegur og allar stúlkur fengu að spila.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - ÍA/Skallagrímur, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla fara nokkrum orðum um leik A-liðsins í dag gegn ÍA/Skallagrími.

Hörkuleikur en kaflaskiptur. Eftir fyrsta mark okkar, um miðjan fyrri hálfleik, og uns við skoruðum síðara mark okkar, nokkuð snemma í síðari hálfleik, var leikurinn í algjörum járnum og við eiginlega fremur undir en hitt, einkum inni á miðsvæðinu.

Vorum þó hættulegri fram á við og vorum að skapa okkur mun fleiri marktækifæri en ÍA/Skallagrímur, sérstaklega í síðari hálfleik og þá gegn vindinum. Sóknarleikurinn skildi liðin að þegar uppi var staðið því mótherjinn var síst lakari úti á vellinum. Eiginlega var hann grjótharður og baráttuglaður (það voru stúlkurnar okkar einnig). Mér fannst nokkuð gott flæði á knettinum en hef þó séð það betra. Mögulega smá ryði um að kenna. Leit samt virkilega vel út m.v. að stúlkur hafa ekki leikið kappleik frá því um mánaðamót ágúst/september. Þá fannst að markskot okkar hefðu mátt vera fleiri, til þess fengum við tækifæri, og þegar þau komu hefðu þau mörg hver mátt vera fastari (munum æfa skot í næstu viku).

Góður 2-1 sigur og stutt á milli, en áður en ÍA/Skallagrímur náði að minnka muninn var dæmt af okkur mark. Mér fannst ÍA/Skallagrímur einu sinni komast nálægt því að jafna metin í stöðunni 2-1, en okkar stúlkur voru í raun mun nær því að bæta við. Sigurinn var því sanngjarn. 

Góð frammistaða hjá stúlkunum heilt yfir og tvö góð mörk litu dagsins ljós frá Hildi og Berglindi (voru reyndar þrjú þar sem eitt var dæmt af sem Hera skoraði). Síðari hálfleikurinn var betri fannst mér þar sem við náðum leiftrandi skyndisóknum. Var afar ánægður með hvernig stúlkur sem komu inn á og fengu tækifæri stóðu sig. Í raun var þetta sigur liðsheildarinnar þar sem frammistaðan var heilt yfir jöfn. 

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikir í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti, liðsskipan

Sæl, öllsömul.

Liðsskipan helgarinnar er eftirfarandi:

A-lið:
Berglind
Bjartey (M)
Embla
Freyja
Fríða
Guðrún Birna
Heiða Lóa
Hera R.
Hildur
Hulda
Indíana
Mist
Sara
Silja
Vaka
Valdís
Vera 

B-lið:
Anna Magnþóra
Bjartey
Ella
Embla
Eva María (M/Ú)
Freyja
Fríða
Guðrún (M)
Heiða Lóa
Hera Lind
Hulda
Indíana
Kara
Perla Sól
Salome
Valdís Anna

Vek athygli á að sumar stúlkur eru boðaðar báða dagana. Það eru þær stúlkur í A-liði sem ekki hefja leik á laugardag, en hlutgengisreglur heimila ekki slíkt. Undantekningar frá þessu eru markverðir.

Á laugardag hefjast leikar kl. 12 og þurfa stúlkur að mæta í vallarhúsið kl. 11. Mótherjar er sameiginlegt lið ÍA/Skallagríms.

Á sunndag hefur sú breyting orðið á að leikar hefjast kl. 11. Mæting er í vallarhúsið kl. 10. Mótherjar eru Valur 2.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Beiðholt, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Breiðholt í gær.

Þetta var nokkuð skrýtinn leikur, þar sem okkar stúlkur voru mun betra liðið úti á vellinum fram af, en Breiðholtstúlkur hættulegri fram á við. Það skilaði þeim þremur mörkum á stuttum kafla í fyrri hálfleik. Öll þau mörk voru keimlík þar sem línan okkar var hátt á vellinum og við fengum á okkur skyndisóknir. Náðum aðeins að rétta okkar hlut í fyrri hálfleik með góðu marki frá Emilíu.

Í síðari hálfleik fannst mér aðeins eitt lið á vellinum þar sem við herjuðum á þær frá fyrstu mínútu. Náðum að saxa á forskotið með góðu marki frá Veru, að jafna metin með góðu marki frá Valdísi úr langskoti og loksins að komast yfir með góðu marki frá Emilíu. Breiðholt náði svo að jafna leikinn úr síðustu spyrnu leiksins sem kom úr aukaspyrnu. 4-4 urðu því lyktir leiks.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna. Ég var ánægður með sóknarleik liðsins, náðum að halda knetti vel innan liðsins en vorum e.t.v. ekki nægjanlega beittar í fyrri hálfleik. Það lagaðist til muna í síðari hálfleik. Varnarleikur okkar í fyrri hálfleik var ekki nægjanlega góður, einkum á þeim kafla sem við fengum á okkur mörkin þrjú. Þar klikkaði tvennt, annars vegar náðum við ekki að setja nægjanlega pressu á leikmanninn með knöttinn og hins vegar féll línan ekki til baka að sama skapi, en þetta tvennt vinnur saman. Af þeim sökum náðu Breiðholtstúlkur að stinga knettinum fyrir aftar varnarlínu okkar og tóku okkur kannski svolítið í bólinu, eins og sagt er. Við náðum okkur þó á fætur og rúmlega það.

Við getum lært af þessu. Mögulega vanmátum við mótherjarann og byrjuðum leikinn ekki af nægjanlegum krafti. Við vorum sigurstranglegri fyrir leikinn þar sem við höfðum unnið þær stórt fyrr í sumar og Breiðholti ekki gengið vel í sumar. Það er hins vegar enginn leikur búinn fyrr en búið er að leika hann og það er ekkert gefið. Það þekkjum við því fyrr í sumar töpuðum við t.d. stórt fyrir Aftureldingu/Fram á útivelli en hefðum getað unnið þær í síðari leiknum, þar sem við vorum betur spilandi liðið, sælla minninga.  

Birgir Jónasson þjálfari.