Kappleikir gærdagsins, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um kappleiki gærdagsins. Hörkuleikir báðir.

A-liðið var nokkuð frá sínu besta og var í vandræðum með að finna taktinn. Barátta Aftureldingar gerði okkur erfitt fyrir þar sem mikil pressa var sett á mann með knöttinn. Af þeim sökum áttum við vandræðum með að vinna úr stöðunni maður gegn manni og mörg návígi töpuðust.

Að mínu mati vorum við betur spilandi þegar við fundum taktinn en því miður voru það of stuttir kaflar. Lentum tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik en náðum að jafna leikinn. Lentum svo þremur mörkum undir í síðari hálfleik og vorum nálægt því að jafna. Fengum betri færi en Afturelding og vorum nær því að jafna en þær að bæta við. 4-5 tap því staðreynd. Mörk okkar gerðu Berglind 3 og Mist 1. Fullt af flottum mörkum.

Leikur B-liða var eiginlega hið gagnstæða, þar vorum við með yfirhöndina og náðum forystu sem við héldum til loka leiks. Komust í 3-0, 4-2 og lyktir urðu svo 4-3 en segja má að um öruggari sigur hafi verið að ræða en tölur gefa til kynna. Mörk okkar gerðu Heiða Lóa 2, Bjartey 1 og Eva María 1. Mjög flott mörk.  

Um skemmtilegan leik var að ræða og mikið af opnum marktækifærum. Við vorum betur spilandi liðið á vellinum en Afturelding sótti í sig veðrið þegar á leikinn leið. Í síðari hálfleik var um tíma svolítið á brattann að sækja en fengum þá mikið af góðum skyndisóknum og tvær af þeim nýttust.

Heilt yfir er ég nokkuð ánægður með frammistöðu dagsins. A-liðið átti svolítið inni en B-liðið var á pari þrátt fyrir nokkur forföll.

Er svo að vinna í því að fá æfingaleiki fyrir jól en eins og staðan er í dag hefur það ekki tekist. Mörg lið með frestaða leiki og geta ekki spilað. Munum áfram reyna. 

Birgir Jónasson þjálfari.