Æfingaleikir gegn HK, stutt endurgjöf

Sæl, öllsömul.

Stutt endurgjöf um kappleiki gærdagsins.

A-liðið var svolítið frá sínu besta, einkum í fyrri hálfleik, en náði að vinna sig inn í leikinn í síðari hálfleik. Hafði allnokkur áhrif á leik okkar (reyndar beggja liða) að tveir af þremur markvörðum okkar voru forfallaðir. Mér fannst það riðla skipulaginu og hafa keðjuverkunaráhrif.

Af þeim sökum fannst mér við ekki ná nægjanlega góðum takti eða háu tempói í leik okkar og við virkuðum óörugg í okkar aðgerðum, ekki síst sendingum. Fengum þó hættulegri marktækifæri í leiknum og vorum nær því að skora fleiri mörk en HK. 1-1 jafntefli því viðunandi niðurstaða. Mark okkar gerði Berglind.  

Leikur B-liðsins var aðeins öðruvísi, þar sem mér fannst við vera betra liðið nær allan leikinn en inn vildi knötturinn ekki. Fengum úrvalsfæri til að skoða í báðum hálfleikum (betri í hinum síðari) en þessu sinni gekk það ekki. Lögðum allt kapp á sóknarleikinn og var refsað fyrir vikið með skyndisóknum og mörkum í andlitið. 

Úrslitin, 0-3 tap, gáfu ekki rétta mynd af gangi leiks. Svona er hins vegar knattspyrnan og lítið við því að gera en að halda áfram og bæta sig.

Heilt yfir er ég stoltur af frammistöðunni. Vorum að leika enn eina ferðina við félag sem er stærra og fjölmennara en okkar og áttum í fullu tré við það.

Birgir Jónasson þjálfari.