Álftanes - Grindavík, stutt endurgjöf um kappleik hjá A-liði

Sæl, öllsömul.

Stutt endurgjöf um kappleik gærdagsins við Grindavík í A-liðum.

Í raun aldrei spurning um hvort liðið væri betra, okkar stúlkur með mikla yfirburði allt frá upphafi. Voru nokkuð lengi að brjóta ísinn en náðu að setja þrjú í fyrri hálfleik og eitt í hinum síðari. Lyktir 4-0. Mörkin gerðu: Vera 2, Berglind 1 og Hildur 1. Allt góð mörk og vel að þeim staðið. 

Heilt yfir var þetta vel leikinn leikur. Náðum upp nokkuð góðri pressu nær alls staðar á vellinum og vorum iðulega fljót að vinna knöttinn. Nokkuð gott flæði var á knettinum og uppspilið virkilega gott. Fengum urmul marktækifæra, einkum í síðari hálfleik, og hefðum getað skorað fleiri mörk. Náðum að spila á nokkuð mörgum leikmönnum en 17 stúlkur léku, þar af léku báðir markverðir einnig sem útileikmenn. Það er nokkuð mikið og sumar stúlkur voru að spreyta sig í fyrsta sinn með A-liði. Gekk það bærilega. Vorum að reyna að stilla upp í kerfi í stuttum hornspyrnum og það gekk vel. Munum við halda áfram að þróa það og fleiri uppstillingar.

Samandregið var þetta flott frammistaða, góð úrslit og sigurinn síst of stór.

Birgir Jónasson þjálfari.