Frí frá æfingum um helgina

Sælar, stúlkur!

Engin æfing verður um helgina og því er næsta æfing á mánudag, kl. 20. Vil þó biðja stúlkur um að gera eitthvað um helgina, t.d. fara út að skokka eða ganga.

Mun svo birta dagskrá næstu viku um helgina.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Grindavík - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Þá er heimasíðan komin aftur í gagnið og unnt að láta til sín taka á ritvellinum. Ætla að byrja á því að fjalla um leikinn við Grindavík í gærkvöldi sem fram fór í Grindavík við bestu aðstæður.

Um hörkuleik var að ræða sem byrjaði þó ekki vel því fyrsta mark leiksins kom eftir tæplega eina og hálfa mínútu og þar voru Grindavíkurstúlkur á ferð. Eftir það vorum við smá tíma að jafna okkur en smám saman náðum við að vinna okkur inn í leikinn og um miðjan hálfleik fannst mér við taka ákveðið frumkvæði í leiknum. Fengum við þá skyndisóknir sem voru stórhættulegar. Grindavík náði ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri, ef undan er skilið eitt skipti þegar leikmaður Grindavíkur komst einn gegn Þórdísi sem gerði vel og hrifsaði knöttinn af fótum leikmannsins. Stóð því 1-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðum en áfram fannst mér við hafa ákveðið frumkvæði, einkum þó sóknarlega, en stúlkurnar voru stórhættulegar fram á við. Um miðjan hálfleik fengum við tvær hornspyrnum með stuttu millibili og náðum við að skora gott mark eftir darraðardans í vítateignum eftir hina síðari. Þar var fyrirliði liðsins, Sigrún, á ferð. Frábært mark eftir fast leikatriði. Stuttu eftir það fengum við hálffæri sem ekki nýttist og við tók nokkur pressa að okkar marki. Þegar um tíu mínútur lifðu eftir af leiknum náðu Grindavíkurstúlkur að skora mark eftir nokkuð harða atlögu að okkar marki og reyndist það mark vera sigurmark leiksins. Voru Grindvíkingar fremur nær því að bæta við en okkar stúlkur að jafna. Urðu lyktir leiks því 2-1, Grindavík í vil. Verða það að teljast sanngjörn úrslit.

Heilt yfir er ég ánægður og stoltur af leik stúlknanna sem gáfu allt í leikinn og lögðu sig allar fram. Ekki er unnt að biðja um meira. Í leiknum voru margir mjög jákvæðir punktar. Í fyrsta lagi gekk það upp sem við lögðum upp með, að undanskilinni afleitri byrjun. Skipulag var gott og við náðum að loka á ákveðin svæði vallarins og draga svolítið vígtennurnar úr Grindavíkurstúlkum sem hafa staðið sig framúrskarandi í sumar og unnið alla leiki sína í deild og bikar. Í öðru lagi náðum við upp góðum spilaköflum inni á miðsvæðinu en þar vorum við með ákveðnar áherslubreytingar. Náðum við í nokkur skipti í leiknum að leysa vel úr pressu með einnar snertingar knattspyrnu og þá náðu leikmenn að halda knetti betur inni á miðsvæðinu en verið hefur. Í þriðja lagi voru við að ná að opna fyrir framhjáhlaup bakvarða í nokkur skipti í leiknum og í nokkur skipti gekk það upp. Þetta höfum við æft sérstaklega og, eins og stúlkur vita, snýst ekki aðeins um hlaup bakvarðar heldur ekki síður um fríhlaup manns án knattar. Í fjórða og síðasta lagi fannst mér vera ákveðið bit í okkar sóknarleik, eitthvað sem ég ekki hefur sést nægjanlega mikið af í undanförnum leikjum. Minnti þetta um margt á það sem best gerðist í Lengjubikarnum og í Faxaflóamóti, en var þó mun betra og skipulagðara. Að mínu mati getum við byggt á þessari frammistöðu og látið okkur það að kenningu verða að byrja leik svo afleitlega en, því miður, var þetta ekki fyrsta sinn sem það gerist. Má það ekki gerast aftur.

Minni svo á æfinguna í dag, fimmtudag, kl. 18.

Birgir Jónasson þjálfari.   

Fyrsta æfingin á grasi

Sælar, stúlkur!

Æfingin á morgun, fimmtudag, er frá kl. 10 (árdegis) og fer fram á grasvellinum á Álftanesi.

Birgir Jónasson þjálfari.

Æfingaferð í Þorlákshöfn, drög að dagskrá

Sælar, stúlkur!

Dagskrá æfingaferðar um helgi komandi er eftirfarandi:

Föstudagur
Klukkan 16:15, mæting við íþróttahúsið á Álftanesi og lagt af stað til Þorlákshafnar í framhaldi.
Klukkan 18-19:15, æfing.
Klukkan 19:45, matur (veitingastaðurinn Svarti sauðurinn). 
Frá klukkan 20 er jafnframt ráðgert að íþróttanuddari komi á svæðið.  

Laugardagur
Klukkan 9, fundur með öllum leikmönnum liðsins. Efni fundar markmiðssetning liðs fyrir sumarið, innan vallar og utan.
Klukkan 10:30-11:30, æfing.
Klukkan 12, hádegisverður (veitingastaðurinn Svarti sauðurinn).
Klukkan 13, íþróttanuddari kemur á svæðið.
Klukkan 18-19, æfing.
Klukkan 20, kvöldmatur. Stúlkur eða einhver á þeirra vegum annast hann.
Klukkan 21, fyrirlestur. Fyrirlesari Þórdís Edda Hjartardóttir. Efni fyrirlestarar: íþróttameiðsli og fyrirbyggjandi aðgerðir. 

Sunnudagur
Klukkan 9, fyrirlestur þjálfara. Efni fyrirlestrar: atriði sem hafa áhrif á frammistöðu í íþróttum. 
Klukkan 10-11-15, æfing.
Klukkan 13:30, lagt af stað heim.

Framangreind dagskrá er birt með fyrirvara um mögulegar breytingar.

Vek athygli á að við munum hafa elduraðstöðu á staðnum og þurfum að annast morgunverð og millimál sjálf.

Þá þurfa stúlkur að hafa meðferðis dýnu og sængurfatnað í umrædda ferð en gist verður í grunnskólanum í Þorlákshöfn. Að öðru leyti á staðalbúnaður er vera nokkuð hefðbundinn.

Bið þær stúlkur sem ekki komast að láta mig vita, hafi þær ekki þegar gert það.

Birgir Jónasson þjálfari.