Álftanes - Keflavík, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ætla að fjalla örstutt um leikinn í dag.

Að mínu mati einn sá furðulegasti knattspyrnuleikur sem ég hef tekið þátt í lengi. Jafnræði var með liðum í u.þ.b. 65 mínútur, en þá stóð 1-1 (Oddný), og að mínu mati vorum við að sækja annað markið fremur en Keflavík og vorum við með leikinn að ákveðnu leyti í okkar höndum, t.d. tiltölulega nýbúin að jafna metin.

Þá gerðist eitthvað sem ég hef ekki séð lengi í knattspyrnu. Ein og sama stúlkan náði að setja á okkur þrjú mörk á sex mínútum og fjögur mörk á einhverjum 14 mínútum. Áður en yfir lauk náði Keflavík að skora fimm mörk á 25 mínútum og lyktir leiks urðu 1-6.

Knattspyrnuleikur er 90 mínútur og mér fannst við hreinlega hætta leiknum eftir ca 70 mínútur, þ.e. í stöðunni 1-3. Eftir það stóð ekki steinn yfir steini í okkar leik og þetta var sjaldséð. Betur færi ef eitthvað sem þetta sæist ekki eftirleiðis því ef við ætlum að láta taka okkur alvarlega gengur þetta ekki og frammistaða af þessu tagi er okkur ekki samboðin. Eftir á að hyggja hefðum við mögulega átt að breyta leikaðferð okkar um miðjan síðari hálfleik og falla niður og loka svæðum en á móti kemur á þeim tímapunkti vorum við betra liðið á vellinum og vorum það lið sem vorum að sækja. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en líklega hefði það verið hið rétta í stöðunni. Við engan annan en mig er að sakast í þeim efnum.

Nú er staðan einfaldlega sú að við erum komin upp að vegg eftir tvo tapleiki á heimavelli gegn Keflavík. Við höfum ekki langan tíma til þess að jafna okkur því næsti leikur er á fimmtudag, gegn Haukum. Það er mjög erfitt verkefni enda Haukar með sterkara lið en Keflavík. Við þurfum að nýta þann tíma vel og ná áttum. Það þurfum við að gera sem lið.

Birgir Jónasson þjálfari.