Haukar - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Hauka á fimmtudag en það var með ráðum gert að láta eilítinn tíma líða uns ég skrifaði pistilinn. Við fórum nokkuð vel yfir þetta eftir leik og í grundvallaratriðum er ég enn sömu skoðunar, ég hef ekki fullkomnar skýringar á gengi okkar nú um stundir. Um marga samverkandi þætti er að ræða og mögulega spila væntingar þar einhverja rullu.

Við lékum ágætan fyrri hálfleik gegn Haukum, án þess þó að skapa okkur afgerandi marktækifæri. Við fengum á okkur tvö ódýr mörk sem er dýrt í leikjum sem þessum. Við vorum samt inni í leiknum og það voru möguleikar fyrir okkur að bæta leik okkar og stíga upp í síðari hálfleik.

Það gerðum við ekki og síðari hálfleikur var einn sá slakasti sem liðið hefur leikið undir minni stjórn, einkum eftir þriðja markið, sem var ódýrt. Eftir það fylgdi okkur algjört lánleysi sem einkum kom fram í tvennu. Í fyrsta lagi var fyrsta snerting og móttaka trekk í trekk afleit. Í öðru lagi, þegar við náðum stjórn á knettinum, var ákvörðunartaka afleit, trekk í trekk. Alltof margar sendingar virtust engan tilgang hafa og voru ekki á samherja, auk þess sem urmull sendinga voru í mjaðmahæð í stað þess að halda knetti með jörðinni. Allt slíkt gerir móttöku auðvitað illmögulega. Ég sagði við ykkur í klefanum að ég kannast ekki við að við höfum nokkru sinni æft og/eða lagt upp með slíkt og því hljóta tæknifeilar af þessu tagi að vera hugarfarslegir.   

Varnarlega, sem lið, voru við óþéttar og varnarleikur okkar mjög slakur, bæði sem liðs og í stöðunni maður gegn manni en, líkt og í fyrri leik okkar gegn Keflavík, unnum við ekki vel úr stöðunni maður gegn manni varnarlega. Lyktir leiks urðu 5-0, Haukum í vil, og var það fyllilega verðskuldað. Í raun getum við prísað okkur sæl að hafa ekki tapað stærra.

Það er augljóst að við erum í lægð og stödd í öldudal eftir tvo leiki sem tapast hafa illa. Sjálfur á ég þessu ekki að venjast enda eru töpin slæm, ekki aðeins í úrslitum talið, heldur frammistöðulega. Nú þurfum við að bæta okkar leik! Það gerum við með því að standa saman sem lið og æfa vel. Hið síðara atriði byrjaði ekki nægjanlega vel því eingöngu níu stúlkur af 16 manna leikmannahóp deginum áður mættu á æfingu í gær. Dæmi hver fyrir sig hvort það geti talist viðunandi, hlutfallslega séð, óháð skýringum þar að baki!  

Þegar ég tala um að standa saman sem lið þá verðum við að styðja við bakið hvert á öðrum, hvetja hvert annað, leggja enn meira á okkur (t.d. með æfingasókn og ákefð á æfingum) og EKKI undir neinum kringumstæðum fara að kenna einstökum leikmönnum um og/eða þjálfara. Gildir þetta um alla sem að okkur standa. Sjálfur er ég sannfærður um að við getum bætt stöðu okkur til muna og sýnt frammistöðu sem við getum verið stolt af. Með öðrum orðum þurfum við fyrst og fremst að horfa inn á við, þ.e. á okkur sjálf, ekki út á við, þ.e. einhverja þætti sem við stjórnum ekki sjálf.  

Birgir Jónasson þjálfari.