Álftanes - Haukar, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ætla að fjalla stuttlega um leik okkar gegn Haukum í gær.

Um hörkuleik var að ræða sem var í járnum allt fram á síðustu mínútu. Nokkurt jafnræði var með liðum til að byrja með, u.þ.b. fyrstu tíu mínútur leiks. Eftir það voru Haukar ívið sterkari en komust lítið áfram gegn okkar vel skipulagða liði. Um miðbik hálfleiks fannst mér við ná góðum tökum á honum og skilaði það einu dauðamarktækifæri (þar sem mark var skorað en dæmd rangstaða) og einu marki. Það mark kom eftir frábæra skyndisókn þar sem Sunna sendi inn fyrir vörn Hauka á Oddnýju sem komst ein gegn markverði og brást ekki bogalistin. Eftir það var enn jafnræði með liðum. Stóð 1-0 í leikhléi.

Í síðari hálfleik pressuðu Haukar á okkur, líkt og búast mátti við, og gerðust smám saman aðgangsharðar, án þess þó að ná að skapa sér nema eitt til tvö opin marktækifæri. Eftir ca hálftíma leik í síðari hálfleik náðu Haukar að jafna metin og eftir það var leikurinn í algjörum járnum, Haukar þó talsvert sókndjarfari. Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma náðu Haukar að skora sigurmark leiksins sem var mjög keimlíkt hinu fyrra. Mjög svekkjandi og grátlegt í alla staði! Að mínu mati hálfgerður þjófnaður miðað við frammistöðu liðanna.

Heilt yfir er ég stoltur af okkar spilamennsku. Við vorum skipulagðar og lögðum okkur allar fram en því miður dugði það ekki til gegn sterku Haukaliði. Mér fannst undirbúningur góður, leikskipulag til fyrirmyndar og á köflum náðum við góðum spilaköflum. Þá voru skyndisóknir okkar vel útfærðar og sköpuðu nokkrum sinnum stórhættu. Stundum er það svo að þú tapar leikjum þrátt fyrir góða frammistöðu. Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því, t.d. sterkur mótherji, eins og raunin varð í þessum leik, að ég tel. Engin skömm er af því að tapa fyrir góðu liði.  

Það er á hinn bóginn sárt að tapa leikjum sem þessum. Aðalatriðið fyrir okkur er að láta þetta ekki á okkur fá heldur taka þessu af reisn og sem lið og jafna okkur fyrir næsta leik. Heilt yfir er ég sáttur við hvernig við viljum vinna okkur út úr þessu og hvernig við ætlum að sameinast um að láta þetta ekki brjóta okkur.

Það einkenni liða með góða liðsheild að þola ekki að tapa en að taka tapi af reisn! 

Birgir Jónasson þjálfari.