Fjölnir - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fjalla örstutt um leikinn við Fjölni í gær.

Um kaflaskiptan leik var að ræða af okkar hálfu og fyrri og síðari hálfleikur eins og svart og hvítt. Lékum hreint afleitlega í fyrri hálfleik, bæði sóknar- og varnarlega, og náðum engum takti í leik okkar. Vorum við langt frá mönnum og daufar sóknarlega. Á köflum var uppspil þó gott. Getum við í raun prísað okkur sæl að Fjölnir skyldi aðeins hafa skorað eitt mark í hálfleiknum. Til marks um hversu daufur fyrri hálfleikur var að við áttum ekki skot á mark í hálfleiknum og mark Fjölnis kom eftir að við höfðum misst knöttinn í uppspili sem ég hef hreinlega ekki séð áður hjá okkur.

Síðari hálfleikur var allt annar og þá lékum við eins og lið, líkt og við erum vön, þar sem leikmenn sýndu meiri kjark og þorðu. Skilaði það jöfnunarmarki um miðbik hálfleiks en þar var Oddný á ferð eftir frábæra stungusendingu frá Helgu inn fyrir vörn Fjölnis. Brást Oddnýju ekki bogalistin, ein gegn markverði. Eftir þetta var allt í járnum en að mínum dómi vorum við líklegri í leiknum til þess að bæta við og vorum beittari en Fjölnir. Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma náði Fjölnir að skora sigurmark leiksins. Átti það mark ansi hreint umdeilanlegan aðdraganda sem ég ætla, góðu heilli, ekki að fjalla sérstaklega um á þessum vettvangi. Þar við sat og sigur Fjölnis staðreynd.

Það er grátlegt að fá á sig sigurmark í uppbótartíma annan leikinn í röð og enn og aftur fellur lítið með okkur. Að ákveðnu leyti getum við sjálfum okkur um kennt að þessu sinni, þ.e. að bjóða upp á svo slaka frammistöðu í fyrri hálfleik. Á hinn bóginn er ég afar stoltur af því hvernig við náðum að snúa leiknum og koma okkur inn í hann. Annað var einfaldlega ekki í okkar höndum! Þá er ég mjög ánægður með frammistöðu þeirra leikmanna sem komu inn á í leiknum en þeirra framlag var virkilega gott.

Við megum ekki láta þetta brjóta okkur og þurfum að koma tvíefldar til leiks í næsta leik. Við verðum að hafa óbilandi trú á okkur sjálfum því við vitum að við eigum talsvert inni.

Birgir Jónasson þjálfari.