ÍA - Álftanes, leikur í Faxaflóamóti, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur.

Ég ætla að fara örorðum yfir leikinn í dag.

Í stuttu máli var okkur, í orðsins fyllstu merkingu, kippt niður á jörðina eftir frábæra frammistöðu í futsal um síðustu helgi og sáum aldrei til sólar gegn sprækum Skagastúlkum sem hreinlega kjöldrógu okkur og niðurlægðu. Niðurstaðan varð verstu úrslit okkar frá því ég hóf þjálfun liðsins, 9-0 tap. Í hreinskilni sagt var frammistaðan okkur sjálfum til skammar.

Eins og ég nefndi við ykkur þá erum við stödd nákvæmlega þarna, á þessum stað, núna. Á því eru margar skýringar og engin einhlít skýring er á frammistöðu sem þessari. Aðallega held ég að leikurinn hafi verið hugfarslegt skipbrot því við vorum að gera eitthvað allt annað en við ætluðum okkur. 

Nú sem aldrei fyrr þurfum að við standa saman, lyfta höfðinu upp og sækja fram. Eins og ég nefndi við ykkur að ef við ætlum að bæta okkur þarf hver og ein að hugsa sinn gang og vera reiðubúin að skuldbinda sig meira í því að verða betri. Drifkrafturinn er ástríðan og hvað þið eruð reiðubúnar að leggja á ykkur. 

Birgir Jónasson þjálfari.