Keflavík - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur.

Ég ætla að fara örfáum orðum um leikinn á miðvikudag. Leikinn í heild sinni má sjá undir eftirfarandi slóð: https://www.youtube.com/watch?v=BqiWllEp9Vc. Hvet stúlkur eindregið til þess að horfa á leikinn.

Sjálfur er ég búinn að horfa á leikinn einu sinni og ætla að horfa á hann aftur og mögulega aftur. Þegar ég horfi á hann fæ ég engan botn í það hvers vegna hann tapaðist 5-0.

Á löngum köflum leiks lékum við ágætlega og héldum knetti með ágætum innan liðs. Mun betur t.d. en í síðustu leikjum. Afleitur 20 mínútna kafli varnarlega varð okkur að falli. Mér fannst okkur t.d. ganga ágætlega að finna samherja í fætur og mér fannst ávallt vera lausir menn til að senda á. Ákvarðataka okkar var á hinn bóginn ekki ávallt rétt. 

Í leiknum og í kjölfar leiksins fannst mér tvennt ama að leik okkar. Er ég enn þeirrar skoðunar. Í fyrsta lagi erum við ekki komin á þann stað að geta leikið fullan leik og okkur skortir leikæfingu, alltént m.v. þau lið sem við höfum leikið við. Í öðru lagi þurfum að vinna í varnartaktík okkar, þ.e. línur slitna og of langt bil er á milli manna. Af þeim sökum var engu líkt en að við værum að leika leikkerfið 5-5, hluta leiks (batnaði þó til muna í síðari hálfleik). Með öðrum orðum skorti hreyfanleika á varnarleik liðs, þ.e. við að skipta úr vörn í sókn og sókn í vörn.

Hengjum ekki haus stúlkur, heldur lærum af þessu. Mér finnst vera mikill stígandi hjá okkur og ég kvíði ekki framhaldinu. Leikur okkar er að batna og hann mun taka miklum breytingum á næstu mánuðum, þ.e. þegar við spilum meira og æfum meira. 

Birgir Jónasson þjálfari.