Álftanes - Sindri, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur.

Stutt endurgjöf í framhaldi af leiknum við Sindra í dag. 

Í stuttu máli þróaðist þetta eins og við reiknuðum með - við sóttum og Sindri varðist. Lékum vel í fyrri hálfleik en vorum klaufar að skora aðeins fjögur mörk. Í síðari hálfleik létum við e.t.v. ekki eins vel úti á vellinum (eðlilega, sökum vinds) en nýttum marktækifærin mun betur og gerðum sjö mörk, en fengum þó líklega ekki eins góð færi og í fyrri hálfleik. Sindri var aldrei nálægt því að skora í leiknum. 

Heilt yfir er ég mjög ánægður með frammistöðuna og taktík okkar. Framherjar okkur voru t.d. hreyfanlegir, góð ógnun kom frá miðvallarleikmönnum og bakverðir náðu góðri dýpt í sínum leik. Uppspil miðvarða var einnig markvisst og öruggt. Þá var hugsun að baki því sem vorum að gera og það var kraftur í okkur varnarlega og við náðum nálega alltaf að setja pressu á leikmanninn með knöttinn. Sindri náði engu spili og í raun var þetta leikur kattarins að músinni. 

Mörk okkar gerðu Oddný 5, Erna 3, Ragna 2 og Sunna 1. Mörkin komu í öllum regnbogans litum, flest eftir uppspil, og það komu mörk úr erfiðum stöðum, eitthvað sem við höfum ekki séð nokkuð lengi. Mjög áhugavert að bera þennan leik t.d. saman við leik gegn Hvíta riddaranum á dögunum en að mínu mati er um áþekk lið að ræða.

Leikurinn var tekinn upp og er hugmyndin að greina hann og vinna úr honum ýmsar upplýsingar og kynna fyrir ykkur. 

Birgir Jónasson þjálfari.