Hvíti riddarinn - Álftanes, stutt endurgjöf

Sælar, stúlkur.

Stutt endurgjöf vegna leiksins á fimmtudag.

Lékum heilt yfir mjög vel og leystum verkefnið af stakri prýði. Auðvitað má alltaf gera betur, s.s. í að nýta marktækifæri o.fl., en það er einfaldlega knattspyrna í hnotskurn.

Lékum góðan varnarleik, náðum að setja pressu á leikmann með knöttinn nánast allan leikinn og það var þéttleiki í varnarleik okkar og ekki mikið um opnanir, eins og gjarnan er með þetta kerfi. Það var gott flæði á knettinum og við náðum að ljúka mjög mörgum sóknum með markskotum (reiknast til að við höfum átt á fjórða tug marktilrauna í leiknum). Skoruðum mörk í öllum regnbogans litum, sjö talsins (Sigrún 3, Erla 1, Ída 1, Oddný 1 og Ragna 1), og komu þau úr föstum leikatriðum, langskotum, eftir stungusendingar og eftir vængspil.

Í sjálfu sér ekki meira um þetta að segja en að þið eigið hrós skilið fyrir ykkar frammistöðu. Þetta var sigur liðsheildarinnar.

Birgir Jónasson þjálfari.