Álftanes - Þróttur Vogum, æfingaleikur, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um æfingaleikinn í gær við Þrótt Vogum.

Byrjuðum þetta ljómandi vel og vorum mun betra liðið. Fljótlega fjölgaði Þróttur um leikmann og lék einum og tveimur fleiri lungann af leiknum. Við það jafnaðist leikurinn og kannski rúmlega það, einkum í síðari hálfleik.

Í fyrri hálfleik var þetta aldrei spurning og lipur tilþrif sáust. Stóð 5-1 í leikhléi, sem þó voru alltof stórar tölur að mínu mati. Annað var uppi á teningnum í síðari hálfleik þar sem jafnræði var með liðum. Urðu lyktir 6-5, okkur í vil. Mörk okkar gerðu Valur (5) og Gunnar (1), að ég held.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan sæmileg. Við lögðum leikinn upp þannig að leika með tvær snertingar á eigin vallarhelmingi með hröðu uppspili, að nota tvær snertingar þegar knötturinn ynnist til að sækja hratt og leika með tvær varnarlínur. Ekkert af þessu fannst mér heppnast vel, í hvorugum hálfleik, og heilt yfir notuðu drengir alltof margar snertingar, of lítil hreyfing var án knattar og of lítið flæði var á knettinum.

Drengir í 5. flokki stóðu sig vel en verkefnið var þeim erfitt þar sem stærðar- og styrktarmunur var á liðunum, Þrótti í vil. Heilt yfir fannst mér við of ragir og létum Þrótt „klukka okkur“, þ.e. þar sem við notuðum of margar snertingar vorum við í alltof miklum návígjum úti á vellinum í stað þess að reyna að láta þá elta okkur. Styrkleikar þeirra nýttust því mun betur en okkar.  

Við eigum svolítið í land þegar mótherjinn er sterkur líkamlega. Þurfum að halda áfram og verða betur í stakk búnir að nýta okkar styrkleika í leikjum sem þessum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Breiðablik, leikur í átta manna knattspyrnu hjá 4. flokki

Sæl, öllsömul.

Stuttur pistill frá okkur þjálfurum um leikinn við Breiðablik fyrr í dag.

Lögðum upp með ákveðið plan, þ.e. að læra af síðasta leik gegn Breiðabliki (fá ekki mark/mörk á sig snemma í báðum hálfleikum), mynda tvær varnarlínur (4-3), vera þéttir til baka og sækja hratt þegar knöttur vannst. Enn fremur að spila stutt og leysa ávallt úr pressu og öðrum stöðum með spili, ekki óðagoti og kýlingum fram eða útaf.

Allt gekk þetta upp og úr varð mikill markaleikur og hin besta skemmtun. Heilt yfir var frammistaða drengjanna til fyrirmyndar, skipulag var gott, drengir duglegir og hugrakkir inni á vellinum, góðir spilakaflar sáust og mörg lítil atriði inni á vellinum gengu upp. Að mati okkar þjálfara vannst sanngjarn sigur, 16-6. Mörk Álftaness gerðu: Valur 8, Kristján 2, Dagur 1, Daníel 1, Gunnar 1 og Viktor 1.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með þessa frammistöðu. Drengir í 5. flokki stóðu sig vel, komu sterkir inn og voru engir eftirbátar drengja í 4. flokki. Mjög gaman að sjá það.

Minnum svo á æfinguna á morgun, kl. 16. Hún verður ca klukkstund. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Prufa

Prufa

4.fl karla á Álftanesi

Sæl öll,

 
Örn Ottesen heiti ég og mun taka að mér það tilraunaverkefni að halda úti 4. flokki karla á Álftanesi. Nú eru nokkrir búnir að lýsa yfir áhuga á að halda sínum dreng í Álftanesi og mun ég láta reyna á það með prufuæfingum í næstu viku. 
 
Tilgangurinn með þessum pósti er að láta vita að á mánudaginn 19. sept hefst fyrsta æfingin og verður líka æfingar á þriðjudeginum 20. sept og fimmtudeginum 22. sept þær munu allar vera á sama tíma eða 18:30 - 19:30. Ef þátttaka á þessum æfingum verður góð þá er möguleiki á áframhaldandi starfi fyrir strákana í 4. flokki, ef þátttakan verður hinsvegar ekki nógu góð þá verður því miður að sleppa 4. flokkinum þetta árið.
 
Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir þá sem vilja vera úti á Álftanesi en þeir strákar sem eru í Stjörnunni eða einhversstaðar annarstaðar eru velkomnir á prufuæfingarnar.
 
Vonandi sé ég sem flesta á þessum æfingum.
Kv, Örn Ottesen, þjálfari.