Ferð á landsleik og breyttur æfingatími á morgun, fimmtudag

Sæl, öllsömul!

Á morgun, fimmtudag, er ráðgert að fara og horfa á landsleik Íslands og Danmerkur hjá A-landsliði kvenna. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 19:30.  

Stúlkur þurfa að mæta við íþróttahúsið kl. 18:30 en lagt verður af stað í framhaldi og eigi síðar en kl. 18:45. 

Ráðgert er að foreldrar/forráðamenn leggi til þær bifreiðar sem til þarf. Ármann R. Úlfarsson ætlar að leggja til bifreið og fara á leikinn. Líklega mun svo þurfa eina til tvær bifreiðar í viðbót en ekki er skilyrði að þeir sem ekið geta fari á leikinn heldur er fullnægjandi að viðkomandi geti selflutt stúlkur fram og til baka. 

Af þessu tilefni verður æfingin á morgun frá kl. 16:30 til 17:30. Mun Guðbjörn Harðarson annast hana en sjálfur verð ég fjarri góðu gamni. 

Birgir þjálfari.

Álftanes - Sindri: 7-0, umfjöllun um æfingaleik

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleikinn við Sindra sem fram fór á sunnudagsmorgun við ágætar aðstæður á Bessastaðarvelli.

Í stuttu máli var um sams konar leik að ræða og leik liðanna daginn áður, með þeirri undantekningu að Sindrastúlkur voru eilítið nær því að skora í fyrri hálfleik og eilítið meira jafnræði var með liðunum í þeim hálfleik. Sindrastúlkur náðu þó ekki að skora en Álftanesstúlkur gerðu tvö mörk í hálfleiknum og stóð því 2-0 í leikhléi, okkar stúlkum í vil. 

Í síðari hálfleik opnuðust allar flóðgáttir að marki Sindra og náðu Álftansstúlkur að skora hvert markið á fætur öðru. Skipti engu máli hvort okkar stúlkur væru fleiri á vellinum. Þegar yfir lauk urðu mörkin fimm í hálfleiknum þrátt fyrir að leiktími hafi verið styttur sem nam einum þriðja. Sindrastúlkur náðu ekki að svara fyrir sig og voru í raun ekki nálægt því í síðari hálfleik. Urðu lyktir því 7-0, Álftanesi í vil. Mörk Álftaness gerðu: Ída María 4, Salka 2 og Sylvía 1.  

Heilt yfir var ég mjög sáttur með frammistöðuna sem var frábær og augljóst var að mikill munur var á liðunum tveimur, mun meiri en búast mátti við fyrirfram. Mjög góðir spilakaflar sáust í leiknum og þá einkum í síðari hálfleik sem var líklega besti hálfleikur stúlkanna í umræddum tveimur leikjum.

Birgir þjálfari. 

Álftanes Íslandsmeistari í sjö manna knattspyrnu

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leik Álftaness og Sindra sem fram fór á Bessastaðavelli fyrr í dag en um var að ræða úrslitaleik í Íslandsmóti í sjö manna knattspyrnu. Fóru leikar fram við góðar aðstæður.

Til að gera langa sögu stutta voru það okkar stúlkur sem áttu sviðið og voru léku við hvern sinn fingur, augljóslega staðráðnar í því að tapa ekki öðrum úrslitaleiknum í röð (hinn fyrri var á Rey cup fyrir skemmstu). Nánar tiltekið voru okkar stúlkur fremri á öllum sviðum knattspyrnunnar en mótherjinn; unnu fleiri návígi, héldu knetti betur innan liðs, luku fleiri sóknum með markskotum og höfðu einfaldlega yfir að ráða meiri gæðum.

Í fyrri hálfleik náðu Álftanesstúlkur að skora þrjú mörg gegn engu og voru mörkin síst of fá, en mjög mörg úrvalsmarktækifæri fóru í súginn. Í síðari hálfleik urðu mörkin sex talsins án þess að Sindri næði að skora. Lyktir leiks urðu því 9-0, Álftanesi í vil. Hreint ótrúlegar tölur sem koma nokkuð óvart, einkum í ljósi þess að liðin mættust fyrr í sumar og þá urðu lyktir 3-3, í leik þar sem Sindrastúlkur leiddu m.a. 1-3. Mörk Álftaness í leiknum gerðu: Salka 4, Ída María 3, Selma 2. Mörg umræddra marka voru einkar glæsileg. 

Heilt yfir er ég afar sáttur með frammistöðu stúlknanna sem léku mjög vel og nokkuð í anda þess sem sást í leik gegn Breiðabliki fyrr í vikunni. Augljóst er að miklar framfarir hafa orðið hjá stúlkunum og þá hafa verið gerðar eilitlar áherslubreytingar í leikskipulagi sem virðast henta stúlkunum vel. Enn fremur er augljóst að Rey cup mótið var mjög góð æfing fyrir stúlkurnar. Loks fá stúlkurnar hrós fyrir að taka vel leiðsögn og gera það sem fyrir þær var lagt sem í dag gekk fullkomlega upp.

Niðurstaða þessi þýðir að lið Álftaness er Íslandsmeistari í sjö manna knattspyrnu. Óska ég stúlkunum til hamingju með það en þær eru vel að þessu komnar. Að baki liggja þrotlausar æfingar í öllum veðrum, alla mánuði ársins, í mörg ár.

Birgir þjálfari.

Æfingaleikurinn við Sindra, tilhögun

Sæl, öllsömul!

Æfingaleikurinn við Sindra hefst kl. 10:30 í fyrramálið, sunnudag. Stúlkur þurfa að mæta í íþróttahúsið kl. 9:45, fullbúnar til leiks og í fatnaði merktum félagi. 

Birgir þjálfari.