Stjarnan - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætlum að fara nokkrum orðum um leikinn á laugardag gegn Stjörnunni. Um hörkuleik var að ræða sem háður var við nokkuð erfiðar aðstæður, bæði vegna kulda og roks. Íslands í desember og því breytum við ekki.

Við náðum að setja fyrsta mark leiksins sem var kannski svolítið gegn gangi leiks. Þar var Mist á ferð en markið kom eftir svonefndan „gamm“, þ.e. Emilía skaut á mark, markvörður Stjörnunnar varði og Mist fylgi á eftir og skoraði. Það skemmtilega er að þetta æfum við skipulega. Gaman þegar hlutirnir af æfingasvæðinu ganga upp.
Eftir það var svolítið á brattann að sækja, Stjarnan sótti meira en við vorum hættuleg í okkar skyndisóknum. Stjarnan náði að setja tvö í fyrri hálfleik og stóð 2-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðum sem skiptust á að sækja. Bæði lið fengu prýðileg marktækifæri en Stjarnan nýtti sín betur og náði að setja tvö mörk í lokin. Lyktir urðu því 4-1, Stjörnunni í vil. Að mati okkar þjálfara var það fullstórt.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna og þetta er allt á réttri leið. Það var hugsun á bak við það sem vorum að gera og við reyndum nánast ávallt að spila knettinum á samherja. Það sem við þurfum að vinna í og bæta er að reyna halda knetti aðeins betur inni á miðjunni og vera hugrakkari að halda honum. Þá fannst okkur smá glufur myndast milli miðvarða og bakvarða. Það þurfum við að þétta.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.