Álftanes - FH, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Við þjálfarar ætlum að fara nokkrum orðum um leikinn í Faxaflóamótinu í dag gegn FH.

Um ágætan leik var að ræða þar sem jafnræði var með liðum framan af. Mjög góðir kaflar voru í okkar leik, einkum í fyrri hálfleik og stúlkur voru að leysa vel stöðu undir pressu. Stóð 1-2 í leikhléi, FH í vil.

Í síðari hálfleik voru FH stúlkur ívið sterkari og við slökuðum aðeins á klónni. Mörk FH urðu fjögur í síðari hálfleik og við náðum að skora eitt. Lyktir leiks urðu því 2-6, FH í vil. Bæði mörk okkar skoraði Emilía. Um frábær mörk var að ræða, annað úr langskoti eftir frábært spil og hið síðar eftir einstaklingsframtak.

Heilt yfir erum við þjálfarar nokkuð sáttir við frammistöðuna og það eru framfarir hjá stúlkunum þrátt fyrir erfiða tíð og fáa kappleiki að undanförnu. Úrslitin gefa ekki rétt mynd af gangi leiks því leikurinn einkenndist svolítið af barningi inni á miðjunni þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa sér mörg marktækifæri. Við vorum svolítið undir í baráttunni þegar á leið, þá einkum sökum þess að FH stúlkur unnu fleiri návígi úti á vellinum og við vorum svolítið rög á köflum. Þurfum að vera svolítið fastari fyrir og hugrakkari þegar við mætum líkamlega sterkum liðum. Það sem varð okkur kannski að falli var að mörk FH komu aðallega úr skotum þar sem við náðum ekki að setja pressu á leikmann með knöttinn.

Getum enn bætt okkur heilmikið og stúlkur þurfa að halda áfram að stunda íþróttina og trúa því að geta orðið betri, betri í dag en í gær o.s.frv. Við erum á réttri leið og við þurfum að halda ótrauð áfram, jákvæð og með viljann að vopni. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.