Álftanes - ÍA/Skallagrímur, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla fara nokkrum orðum um leik A-liðsins í dag gegn ÍA/Skallagrími.

Hörkuleikur en kaflaskiptur. Eftir fyrsta mark okkar, um miðjan fyrri hálfleik, og uns við skoruðum síðara mark okkar, nokkuð snemma í síðari hálfleik, var leikurinn í algjörum járnum og við eiginlega fremur undir en hitt, einkum inni á miðsvæðinu.

Vorum þó hættulegri fram á við og vorum að skapa okkur mun fleiri marktækifæri en ÍA/Skallagrímur, sérstaklega í síðari hálfleik og þá gegn vindinum. Sóknarleikurinn skildi liðin að þegar uppi var staðið því mótherjinn var síst lakari úti á vellinum. Eiginlega var hann grjótharður og baráttuglaður (það voru stúlkurnar okkar einnig). Mér fannst nokkuð gott flæði á knettinum en hef þó séð það betra. Mögulega smá ryði um að kenna. Leit samt virkilega vel út m.v. að stúlkur hafa ekki leikið kappleik frá því um mánaðamót ágúst/september. Þá fannst að markskot okkar hefðu mátt vera fleiri, til þess fengum við tækifæri, og þegar þau komu hefðu þau mörg hver mátt vera fastari (munum æfa skot í næstu viku).

Góður 2-1 sigur og stutt á milli, en áður en ÍA/Skallagrímur náði að minnka muninn var dæmt af okkur mark. Mér fannst ÍA/Skallagrímur einu sinni komast nálægt því að jafna metin í stöðunni 2-1, en okkar stúlkur voru í raun mun nær því að bæta við. Sigurinn var því sanngjarn. 

Góð frammistaða hjá stúlkunum heilt yfir og tvö góð mörk litu dagsins ljós frá Hildi og Berglindi (voru reyndar þrjú þar sem eitt var dæmt af sem Hera skoraði). Síðari hálfleikurinn var betri fannst mér þar sem við náðum leiftrandi skyndisóknum. Var afar ánægður með hvernig stúlkur sem komu inn á og fengu tækifæri stóðu sig. Í raun var þetta sigur liðsheildarinnar þar sem frammistaðan var heilt yfir jöfn. 

Birgir Jónasson þjálfari.