Álftanes - Valur, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti

Sæl, öllsömul .

Nokkur orð um leik B-liðsins í dag gegn Val 2 í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti sem fram við hreint frábærar aðstæður á Álftanesi.  

Hörkuleikur og margar af okkar stúlkum (og beggja liða) að stíga sín fyrstu skref í 11 manna knattspyrnu. Það var jafnræði með liðum í byrjun leiks. Smám saman náðum við hins vegar yfirhöndinni og gegn gangi leiksins skoraði Valur eina mark leiksins. Markið kom úr góðu skoti.

Fengum góð marktækifæri í báðum hálfleikum til að jafna metin (og komast yfir fyrr í leiknum) en það tókst því miður ekki. Um tíma í síðari hálfleik var um algjöra einstefnu að ræða en inn vildi knötturinn ekki. Skall oft hurð nærri hælum við mark Vals, t.d. áttum við skot í markslá úr góðu færi. Þá áttum við mikið af skotum á markið, án þess að þau kæmu beinlínis úr marktækifærum.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan góð og í raun vonum framar og ekki var að sjá að stúlkur væru að leika í fyrsta sinn á stórum velli. Það voru liprir kaflar hjá okkur, gott spil og stúlkur voru baráttuglaðar og gáfu allt í það að reyna jafna (og auðvitað vinna leikinn). Er ánægur með hve mörg markskot við áttum og hvernig við vorum sífellt að reyna. Eigum auðvitað langt í land á mörgum sviðum og þurfum að æfa atriði eins og hornspyrnur og önnur föst leikatriði, bæði sóknar- og varnarlega. Þá er nokkuð ljóst að við þurfum að æfa markskot á næstu vikum 😊.

Fyrir mestu er að leikurinn var skemmtilegur og allar stúlkur fengu að spila.

Birgir Jónasson þjálfari.