Æfingaleikir við Fylki, stutt endurgjöf

Sæl, öllsömul.

Stutt endurgjöf um æfingaleikina við Fylki fyrr í dag. Nokkuð ólíkir leikir en mjög fínir, hvor á sinn hátt.

Í leik A-liða var hátt tempó þar sem við náðum tveggja marka forystu snemma leiks sem við héldum til enda. Frábærir spilakaflar í leiknum þar sem við sköpuðum urmul marktækifæra og áttum t.d. skot í stöng og markslá. Hefðum að mínu mati getað gert aðeins betur upp við markið. Í raun öruggur og góður sigur sem aldrei var í hættu og síst of stór. Mörkin gerðu Mist og Vaka.

Leikur B-liða var allt öðruvísi, en í raun var um jafnan leik að ræða, einkum framan af. Gerðum tvö mörk í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik opnuðust allar flóðgáttir og náðum við að setja fimm mörk. Lyktir urðu 7-2, okkur í vil. Mörkin gerðu Eva María 3, Heiða Lóa 2, Bjartey 1 og Embla 1. Stór sigur miðað við gang leiksins en við nýttum marktækifæri okkar afar vel og uppskárum eftir því. Markverðir okkar gerðu einnig oft og tíðum vel.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðu beggja liða og verkefnið kærkomið. Fullt af góðum spilaköflum, marktækifærum, mörkum og allar stúlkur fengu að spila og vonandi verkefni við hæfi. 

Birgir Jónasson þjálfari.