Tvær stúlkur í 5. flokki boðaðar í kappleik á morgun, laugardag

Sæl, öllsömul!

Birta og Katrín eru hér með boðaðar í kappleik með 4. flokki á morgun, laugardag. Umræddur leikur hefst kl. 16 og fer fram í Fífunni í Kópavogi en att verður kappi við eitt af liðum Breiðabliks. Þurfa þær að vera mættar í Fífuna ca hálfri klukkustund fyrir leik, fullbúnar til leiks. 

Þá er athygli vakin á því að engin æfing verður hjá 4. flokki stúlkna á morgun en eins og þið vitið þá stendur stúlkum á eldra ári í 5. flokki til boða að stunda þær æfingar.

Birgir Jónasson, þjálfari 4. flokks stúlkna. 

Tækniþjálfun - tækniæfingar

Sæl, öllsömul!

Tækniæfingar í umsjá undirritaðs munu hefjast fimmtudaginn 24. október nk. Upphaflega stóð til að hefja æfingar á morgun, 17. október, en vegna veikinda þjálfara er það ekki unnt. Því miður!

Fyrirkomulag æfinga verður með því sniði að stúlkur í 5. aldursflokki munu æfa með stúlkum á eldra ári í 6. aldursflokki. Æfingarnar munu standa frá kl. 18:30 til 19, sem áður segir á fimmtudögum, og fara fram á sparkvellinum á Álftanesi.

Iðkendur þurfa sjálfir að leggja til knött. Mikilvægt er að iðkandi mæti með knött sem hæfir hans aldursflokki, t.d. ef leikið er með knött nr. þrjú að iðkandi eigi eða hafi til umráða knött í þeirri stærð. Þá er mikilvægt að loft sé í knöttum og að þeir séu af nokkuð vandaðri gerð og skoppi t.d. eðlilega. Er þetta gert í því augnamiði að hvetja iðkendur til þess að eiga knött og fara vel með hann.

Framangreind tækniþjálfun er byggð á viðurkenndum aðferðum við tækniþjálfun í knattspyrnu og er kennd við hið þekkta „Coerver-system“. Hugmyndafræðin gengur út á einstaklingstækniþjálfun og ekki síst því að iðkandi læri ákveðin grunnatriði sem hann sjálfur getur svo þróað með því að æfa sig sjálfur, aftur og aftur.

Birgir Jónasson tækniþjálfari.

Nýr þjálfari

Sæl öll

Elín heiti ég og er nýr þjálfari 5.flokks kvenna. Ég er með ba.próf í félagsráðgjöf og starfa á Náttúruleikskólanum Krakkakoti. Ég spilaði fótbolta frá um 9 ára aldri fram til 20 ára þegar ég hætti vegna þrálátra meiðsla. Ég á marga titla að baka með Stjörnunni en ég spilaði með þeim frá 14 ára aldri þar til ég varð að hætta. Fram að 14 ára aldri spilaði ég með Álftanesi. Ég er mjög spennt fyrir tímabilinu :) Æfingarnar hafa gengið mjög vel og er stelpurnar flottar fótboltakonur.

Upplýsingar um netfang og símanúmer hjá mér er að finna hér til hliðar á síðunni. Ef það er eitthvað sem að liggur ykkur á hjarta þá er um að gera að hafa samband.

Ég mun skrifa hér inn á þetta blogg ásamt því að halda út grúbbu á facebook sem er titluð 5. flokkur kv UMFÁ. Ég hvet þá foreldra sem eru á facebook að ganga í þá grúbbu.

Kveðja

Elín

Æfingum lokið í bili

Sæl, öllsömul!

Æfingar hjá 5. flokki stúlkna hafa runnið sitt skeið á enda þetta þjálfunartímabilið en síðasta æfing tímabilsins fór fram í gær, fimmtudag, 29. ágúst.

Nú verður gert hlé á æfingum þar til um miðjan mánuð, ef að líkum lætur, eða eftir uppskeruhátíð félagsins sem auglýst verður síðar. Þá mun einnig nýr þjálfari taka við þjálfun flokksins en við undirritaðir erum að hætta þjálfun flokksins. Hver það verður sem tekur við liggur ekki fyrir á þessari stundu.

Af þessu tilefni viljum við nota tækifærið og þakka ykkur öllum kærlega fyrir samstarfið.

Það athugast að stúlkur á eldra ári í 5. flokki færast upp um flokk en æfingar hjá nýjum 4. flokki stúlkna hefjast á þriðjudag, kl. 17. Mun undirritaður Birgir þjálfa þann flokk.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.