Álftanes - Einherji, stutt endurgjöf

Sælar, stúlkur.

Stutt endurgjöf vegna kappleiksins í gær. Verð þó fyrst að hrósa ykkur fyrir frábæra æfingu í dag, mánudag. Virkilega gott tempó hjá okkur.

Heilt yfir var þetta sæmileg frammistaða hjá okkur. Þrátt fyrir það fannst mér sigur okkar mun öruggari en tölur gefa til kynna. Mér fannst þurr völlurinn gera okkur erfitt fyrir og mikið var um hnoð og á köflum reyndum við allof mikið að þröngva knettinum inn á svæði vallar þar sem lítið var um pláss. Af þeim sökum fannst of mikið af einföldum tæknifeilum og við náðum ekki upp nægjanlega góðu flæði, ef undan er skilið vængspil sem var gott og að bakverðir komu hátt á völlinn. Tel ég að völlurinn hafi þar ráðið miklu um að flæðið var ekki betra inni á vellinum og að við skyldum ekki ná réttum takti. Það sem var jákvætt að við skutum mikið á markið og náðum að skapa okkur góð marktækifæri. Markaskorar voru Ragna, Saga og Sigrún. Öll mörkin voru góð, komu eftir liðssamvinnu og af fjölbreyttum toga.

Það sem við tökum úr leiknum að við sóttum þarna þrjú stig án þess að leika okkar besta leik. Það er mjög jákvætt.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur í Íslandsmót, tilhögun

Sælar, stúlkur.

Eftirtaldar stúlkur eru boðaðar í kappleikinn á sunnudag:

Aníta, Aþena, Elín, Elsa, Erla, Erna, Eydís Líf, Ída María, Júlíana, Katrín Hanna, Margrét Eva, María Rún, Oddný, Ragna, Saga, Selma, Sigrún og Sædís.

Mæting kl 12:30 en leikar hefjast kl. 14. Leikið verður á grasvellinum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Fjölnir, stutt endurgjöf

Sælar, stúlkur.

Stutt endurgjöf vegna leiksins í gær. Í sjálfu sér ekki miklu við að bæta sem við ræddum um eftir leik, við náðum ekki að sýna okkar allra bestu hliðar og það voru þessi smáatriði sem ekki gengu. Lékum þó alls ekki illa. Það vantaði herslumuninn hjá okkur sóknarlega og okkur var refsað fyrir það, mjög grimmilega, ítrekað og þriggja marka ósigur gefur ekki rétta mynd af gangi leiksins.

Við reyndum allan leikinn og stúlkur gáfust aldrei upp og fyrir það fær liðið hrós. Stutt í næsta leik og við fáum ekki langan tíma til þess að sleikja sárin. Höldum áfram stúlkur og látum ekki deigan síga.

Birgir Jónasson þjálfari.