Staðan á búningamálum o.fl.

Sælar, stúlkur. 

Fín æfing í kvöld og við hvílum svo á morgun, föstudag. 

Eins og staðan er núna eru meiri líkur en minni að nýir keppnisbúningar verði tilbúnir fyrir laugardag. Þá eru einnig meiri líkur en minni að við hittumst kl. 11 á laugardag á Kaffi Álftanesi. Skýrist á morgun, líklega síðari hluta dags.

Mun svo kunngera nánari tilhögun fyrir kappleikinn síðari hluta dags á morgun. 

 

Birgir Jónasson þjálfari.  

Æfing fellur niður á morgun, þriðjudag, æft á miðvikudag í staðinn

Sælar, stúlkur. 

Æfing fellur niður á morgun, þriðjudag. Æfum þess í stað á miðvikudag. Það eru kappleikir á vellinum hjá 5. flokki drengja og því getum við ekki byrjað æfingu fyrr en kl. 18:15 (þurfum mögulega að hita upp á grasvellinum).  

Æfum í ca 75 mínútur og förum svo inn í félagsaðstöðu þar sem við munum setjast niður og setja okkur markmið fyrir sumarið. Munum beita nokkuð hefðbundnum aðferðum við það verk, þ.e. skipta ykkur upp í hópa og fá fram hugmyndir/tillögur að markmiðum. Að því búnu munum við sameinast um tvö til þrjú markmið. Loks munum við finna leiðirnar að markmiðum okkar og setja fram tillögur um það.

Birgir Jónasson þjálfari. 

HK/Víkingur - Álftanes, endurgjöf

Sælar, stúlkur.

Ætla að vera stuttorður í endurgjöf minni um leikinn í gær. Við mættum mun betra liði sem við gáfum leik í ca 30 mínútur, eða þar til við fengum á okkur fyrsta markið. Við reyndum að breyta í upphafi síðari hálfleiks en þegar það gekk ekki og staðan var orðin 3-0 eftir 50 mínútur brotnuðum við.

Þegar svo er ganga hlutirnir yfirleitt ekki og allt fellur mótherjanum í vil, t.d. öll vafaatriði sem upp koma. Stundum er sagt að heppnin sé ávallt með hinum betri en að mínu mati er heppni ekki til í íþróttum, þetta snýst um að skapa sér eigin velgengni.

Við þurfum fyrst og fremst að leita inn á við til þess að fá skýringar á því hvers vegna við brotnuðum og höfum svolítið verið að brotna. Að mínu mati eru mögulegar skýringar að þau verkefni sem við höfum verið í hafa verið erfið. Mér reiknast t.d. til að þetta sé þriðji leikurinn í röð sem við fáum á okkur fimm mörk eða fleiri og áttundi leikurinn frá áramótum.

Að sjálfsögðu segja tölurnar sína sögu en alls ekki alla. Hvað sem því líður höfum við verið að fá á okkur alltof mikið af mörkum, þrátt fyrir að verkefnin hafi verið krefjandi. Þetta þurfum við að bæta og það gerum við ekki öðruvísi en að æfa vel og reyna í sífellu að reyna læra af mistökunum og bæta okkar leik, öllum stundum. Biðla því til ykkar að staldra ekki og lengi við og alls ekki hengja haus – lífið heldur áfram.

Hef áhuga á að við hittumst í vikunni og setjum okkur markmið fyrir sumarið. Mér sýnist að hafi gefist einkar vel fyrir okkur að setja okkur markmið, með skipulögðum hætti. Nánara fyrirkomulag þess verður kunngert síðar. Finnst þó líklegt, eins og staðan er núna, að við hvílum á þriðjudag og æfum á miðvikdag þess í stað (er að hugsa um ykkur og Evróvisjón). Við myndum þá nota tímann eftir æfingu á miðvikudag til þess að hittast og setjast niður. Ræðum þetta þó betur á æfingu á morgun, mánudag.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur í Bikarkeppni KSÍ, tilhögun

Sælar, stúlkur. 

Leikum í Bikarkeppni KSÍ á laugardag, kl. 14, gegn HK/Víkingi. Leikurinn fer fram í Kórnum og ég veit ekki annað en að leikið verði innandyra. 

Stúlkur eru boðaðar á leikstað kl. 12:30 umræddan dag. 

Birgir Jónasson þjálfari.