UMFÁ

Ungmennafélag Bessastaðahrepps var stofnað 1946 en nafni félagsins breytt árið 2004 í Ungmennafélag Álftaness í samræmi við breytingu á nafni Bessastaðahrepps í Sveitarfélagið Álftanes.

Tilgangur og meginmarkmið félagsins er að stuðla að iðkun íþrótta fyrir börn og unglinga, almenning og keppnis- og afreksfólk. Til þess nýtur félagið stuðnings Sveitarfélagsins Álftaness en innheimtir auk þess æfingargjöld í flestum tilvikum.

Starfi félagsins er skipt í deildir eftir íþróttagreinum. Um þessar mundir er æfð knattspyrna, körfubolti, sund, blak, tennis og frjálsar íþróttir. Auk þess er starfar Íþróttaskóli barnanna á veturna en þann skóla er öllum börnum á Álftanesi á aldrinum 3-6 ára frjálst að sækja.

Þungi starfsins hjá Ungmennafélagi Álftaness snýr að ungmennum. Þó eru starfandi meistaraflokkar í knattspyrnu karla, körfubolta karla og blaki kvenna. Fjárhagur þessara flokka er algerlega óháður yngri flokkunum og þar greiða menn æfingargjöld eins og aðrir sem keppa undir merkjum félagsins.

Félagið leggur áherslu á að ráða ávalt bestu þjálfara sem kostur er á hverju sinni. Ungmennafélagið nýtur krafta launaðs framkvæmdastjóra í hlutastarfi – en annað innan félagsins er unnið í sjálfboðavinnu.