Íslandsmót í sjö manna knattspyrnu - umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Við þjálfarar ætlum að fara nokkrum orðum um Íslandsmótið í sjö manna knattspyrnu hjá 4. flokki drengja en fremur lítið hefur farið fyrir umfjöllun um það hér inni á heimasíðunni í sumar.

Álftanes lék í A-riðli en alls var leikið í tveimur riðlum. Í mótinu hafa einkum leikið drengir (og ein stúlkna, Salka, sem stóð sig frábærlega) sem lítið hafa leikið með 11 manna liðinu í sumar og/eða hafa ekki hafið næsta leik á undan með því liði. Frá þessu hafa verið einhverjar undantekningar.

Í stuttu máli var leikjafyrirkomulag Íslandsmótsins í sjö manna knattspyrnu á þá lund að leikið var heima og að heiman þar sem allir léku við alla en alls voru fimm lið skráð til keppni, þ.e. auk Álftaness, Hrunamenn, Hörður, Leiknir R. og Skallagrímur.

Upplýsingar um leikjafyrirkomulag og úrslit má nálgast undir eftirfarandi vefslóð: http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=31223.

Skemmst er frá að segja að Álftanes lauk keppni í gær, föstudag, og náði að tryggja sér sigur í riðlinum eftir hörkuleik við Leikni R. á Leiknisvelli, 5-5 (Salka 2, Guðmundur Ingi 1, Tómas 1, Tristan 1). Hlaut Álftanes 19 stig og tapaði aðeins einum leik.

Álftanes mun því taka þátt í úrslitakeppni Íslandsmótsins sem fram mun fara um næstu helgi. Ekki liggur fyrir hvar leikið verður. Þá liggur ekki fyrir hvaða lið auk Álftaness mun taka þátt þar sem keppni í riðlunum er ekki lokið. Mun það hins vegar skýrast um miðja næstu viku. Mögulega mun keppnin fara fram úti á landi.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðu iðkenda og spilamennsku þeirra í mótinu. Það verður því spennandi sjá hvað gerist næstu helgi en vonandi fá drengir verðugt og krefjandi verkefni.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Leikur hjá sjö manna liðinu - liðsskipan og tilhögun

Sæl, öllsömul!

Á morgun, þriðjudag, 13. ágúst, verður leikið í Íslandsmóti hjá sjö manna liðinu þegar att verður kappi við Skallagrím í Borgarnesi.

Eftirfarandi iðkendur eru hér með boðaðir í umræddan leik:

Alex Ó., Aron Logi (M), Bjarki, Bolli Steinn, Brynjar Freyr, Elvar, Gabríel E., Guðjón, Guðmundur Bjartur, Guðmundur Ingi (leikur úti), Hlynur G., Salka, Sigurður Detlef, Tómas og Tristan.

Ráðgert er að fara með einkabifreiðum. Þeir foreldrar/forráðamenn sem lagt geta til bifreiðar eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta það hér inni á síðunni. Eldsneytisgjald verður 1.000 krónur en það verður innheimt áður en lagt verður af stað.  

Leikurinn hefst kl. 17. Iðkendur þurfa að vera mættir við íþróttahúsið kl. 15 með allan tiltækan búnað meðferðis. Lagt verður af stað í framhaldi.

Magnús og Matthías Helgi hafa þegar boðað forföll. Öll frekari forföll ber að tilkynna, það auðveldar skipulagningu. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

ÍR - Álftanes: 2-6

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um leik ÍR og Álftaness í Íslandsmóti sem fram á fór á mánudag við bestu aðstæður á gervigrasvelli ÍR.

Skemmst er frá að segja að um mikla yfirburði okkar drengja var að ræða þar sem þeir sýndu, einkum framan af, allar sínar bestu hliðar. Frábært flæði var á knettinum og héldu drengirnir knettinum innan liðsins með afbrigðum vel. Mörkin létu á sér standa, framan af, en eftir fyrsta markið var þetta aðeins spurning hve mörg þau yrðu. Stóð 0-3 í leikhléi og eftir 50 mínútuna leik 0-6. Eftir það voru gerðar tilteknar breytingar á liðinu og komust ÍR-ingar þá betur inn í leikinn og náðu að minnka muninn í 2-6, sem urðu lyktir leiks.

Mörk Álftaness gerðu: Gylfi Karl 3, Tristan 2 og Atli Dagur 1. Mörg markanna voru hreint frábær, þó einkum mark númer tvö þar sem mér reiknast til að þegar knötturinn fór inn fyrir marklínu, eftir spyrnu af stuttu færi, hafi sú spyrna verið 13. spyrnan í samfellu innan liðsins án þess að knötturinn hefði viðkomu í ÍR leikmanni. Svona á að leika knattspyrnu!

Heilt yfir fannst mér umræddur leikur, einkum fyrstu 50 mínútur hans, vera einn sá besti sem ég hef séð í sumar, ef ekki sá besti. Frábært flæði var á knettinum frá aftasta manni, gott veggspil inni á miðjunni, varnarmenn tóku mikinn þátt í sóknarleik, ekki síst bakverðir með framhjáhlaupum, og allt liðið varðist vel, allt frá fremsta manni. Mikill hraði var í leiknum og voru drengir að nota eina, tvær og þrjár snertingar.

Næsti leikur er svo á fimmtudag, 22. ágúst, gegn Þrótti R. Leikið verður á Álftanesi. Upphaflega átti leikurinn að fara fram á þriðjudag en leiktíma hefur verið breytt.

Birgir Jónasson þjálfari.