Álftanes - Breiðablik 1-4, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleik Álftaness og Breiðabliks sem fram fór í síðustu viku. Leikur þessi fór fram á Álftanesi við prýðilegar aðstæður og leikin sjö manna knattspyrna.

Nokkurt jafnræði var með liðum allt frá upphafi en liðin voru bæði vel spilandi. Það sem helst skildi á milli var að Blikar voru beittari fram á við og náðu að ljúka flestum sínum sóknum með markskotum meðan að okkar stúlkum voru hálfmislagðar fætur upp við markið. Það skilaði Blikum tveggja marka forystu í leikhléi, án þess að okkar stúlkum tækist að skora og var sú staða nokkuð gegn gangi leiksins að mínu mati.

Í síðari hálfleik hressust okkar stúlkur og Salka náði að minnka muninn nokkuð fljótlega með góðu marki eftir að hafa komist ein gegn markverði. Liðin skiptust svo á að sækja, þar sem okkar stúlkur sóttu ívið meira. Það voru hins vegar Blikar sem sáu um frekari markaskorun og náðu þær að skora tvö mörk áður en yfir lauk. Lyktir leiks urðu því 1-4, sem verða að teljast alltof stórar tölur miðað við gang leiksins.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðu stúlknanna sem lögðu sig allar fram. Samtals léku 14 stúlkur í umræddum leik og allar fengu góðar spilatíma. Góðir spilakaflar voru hjá okkar stúlkum en því miður náði liðið ekki að nýta sín marktækifæri nægjanlega vel og varnarleikurinn var á köflum nokkuð óstyrkur, allt frá fremsta manni. Þá var of mikið af ónákvæmum sendingum undir lítilli sem engri pressu.

Birgir þjálfari.

Æfingin á morgun, miðvikudag, er frá kl. 16:45 og hópefli á fimmtudag

Sæl, öllsömul!

Vegna kappleiks á Bessastaðavelli o.fl. ástæðum verður æfing á morgun, miðvikudag, frá kl. 16:45. 

Á fimmtudag, frá kl. 19:15, ætlum við svo að hafa hópefli fyrir flokkinn í tilefni af því að Halldóra er að flytja með fjölskyldu sinni til útlanda og við viljum kveðja þessa viðfeldnu stúlku að sinni. Munum við hittast í félagsaðstöðunni, panta okkur pítsu og horfa saman á kvikmynd sem hæfir stúlkum á þessum aldri. Stúlkur mega hafa hálfan lítra af gosi meðferðis og svo sjö hundruð krónur í reiðufé, að undanskilinni Halldóru sem að sjálfsögðu þarf ekki að greiða. 

Birgir þjálfari.

Æfing á morgun, fimmtudaginn 29. maí

Sæl, öllsömul!

Það athugast að æfingin á morgun, fimmtudaginn 29. maí, er frá kl. 16:45 og verður hún á grasvellinum. Fyrri hluti æfingar verður með tæknilegu ívafi og hinn síðari hluti leikfræðilegur.  

Birgir þjálfari.

Æfingaleikur á morgun, miðvikudag

Sæl, öllsömul!

Á morgun, miðvikudaginn 28. maí, verður leikinn æfingaleikur við Breiðablik í sjö manna knattspyrnu. Leikið verður á Álftanesi og hefjast leikar kl. 16.

Allir tiltækir iðkendur flokksins eru boðaðir og þurfa stúlkur að mæta í félagsaðstöðuna kl. 15:20 umræddan dag, fullbúnar til leiks. Gengið er út frá að allar stúlkur eigi keppnisskyrtu.  

Birgir þjálfari.