Leik í Íslandsmóti frestað

Sæl, öllsömul!

Ráðgerðum leik í Íslandsmóti gegn ÍBV, sem vera átti á morgun, fimmtudag, 22. ágúst, hefur verið frestað vegna slæmrar sjóveðurspár en fyrirséð er að ÍBV muni ekki komast af þeim sökum.

Umræddur leikur mun fara fram á sunnudag, 25. ágúst, kl. 15:30. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar. 

Æfing á föstudag, ekki á morgun

Sæl, öllsömul!

Vegna kappleiks í Íslandsmóti á Bessastaðavelli fellur æfing niður á morgun, fimmtudag. Þess í stað verður æfing á föstudag, frá kl. 16. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar. 

Pæjumótið á Siglufirði - umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um Pæjumótið á Siglufirði sem fram fór við góðar aðstæður 9. til 11. ágúst, eða um síðustu helgi.

Álftanes tefldi fram tveimur liðum, A- og B-liði. Fyrirkomulag mótsins var hins vegar á þá lund að aðeins var keppt einum riðli þar sem öll lið kepptu innbyrðis. Þá fór enn fremur fram bikarkeppni sem leikin var í hraðmóti. Leikir í riðlinum fóru fram á föstudag, laugardag og fyrir hádegi á sunnudag en keppni í bikarkeppni eftir hádegi á sunnudag.

Að þessu sinni ætla ég ekki birta úrslit mótsins, það þjónar ekki tilgangi að þessu sinni. Eins og gefur að skilja olli leikjafyrirkomulag þetta því að um nokkuð erfitt mót var að ræða hjá B-liði. Einnig verður að segjast liðinu var of lítill griður gefinn frá mótherjum.

Helsta einkenni mótsins hefur hve margir leikir eru leiknir og engin breyting varð á að þessu sinni en A-lið lék 12 leiki og B-lið 11 leiki. Að mínu mati er það of mikið á svo fáum dögum, alltént þegar aðeins átta stúlkur skipa hvort lið, eins og raunin var hjá liðum Álftaness.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna. Úrslit og sæti eru alltaf afstæð og segir ekki alltaf alla söguna þegar frammistaða er metin. Rétt er þó að geta þess að A-liðið hafnaði í öðru sæti mótsins og afar lítið vantaði uppá að liðið kæmist í úrslit bikarkeppninnar þar sem att var kappi við besta lið mótsins, KA.

Spilamennska liðanna var nokkuð góð að mínu mati í mótinu en þó var nokkurt áhyggjuefni að fram á við hefði mátt vera meiri ógnun. Markaskorun dreifðist hins vegar jafnt yfir stúlkur og að mínum dómi er það jákvætt. Birta, Eva, Katrín Selma, Sylvía og Veronika skoruðu t.d. allar mörk á mótinu fyrir A-liðið. Mest ánægður er ég með að hafa farið á mótið og náð að tefla fram tveimur liðum, það finnst mér vera besti mælikvarðinn á frammistöðuna.

Hvað umgjörð mótsins varðar þá var gistiaðstaða frábær (en við gistum í Rauða kross húsinu) og maturinn að sama skapi. Þá stóðu foreldrar/forráðamenn sig frábærlega en afar ánægjulegt var að sjá hve margir komu og studdu stúlkurnar og tóku þátt í skipulagi. Þá fá foreldrar/forráðamenn sérstakt hrós fyrir prúðmennsku og jákvæðan stuðning meðan á móti stóð. Er það án nokkurs vafa liður í því að lið Álftaness vann háttvísisverðlaun mótsins í 5. aldursflokki.

Loks vil ég þakka ykkur öllum kærlega fyrir frábæra helgi.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - HK: 0-0 - stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um leik Álftaness og HK í Íslandsmóti sem fram fór á Bessastaðavelli í síðustu viku við sæmilegar aðstæður. Um var að ræða leik hjá A-liðum.  

Um jafnan og spennandi leik var að ræða þar sem allt var í járnum frá upphafi til enda. HK stúlkur voru sterkari framan af en náðu þó ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri. Þegar á leikinn leið komust okkar stúlkur betur inn í leikinn og voru nokkrum sinnum nálægt því að skapa sér góð marktækifæri í fyrri hálfleik. Hvorugu liðinu tókst þó að skora í fyrri hálfleik og stóð því 0-0 í leikhléi.

Í síðari hálfleik voru okkar stúlkur sterkara liðið og voru nokkrum sinnum mjög nálægt því að skora. Inn vildi knötturinn hins vegar ekki að þessu sinni. Á síðustu mínútu leiksins fengu HK stúlkur algjört dauðafæri en Sædís varði þá frábærlega í stöðunni einn gegn markverði. Þar við sat og urðu lyktir leiks 0-0. Líklega nokkuð sanngjörn úrslit.

Heilt yfir fannst mér stúlkurnar leggja sig allar fram og börðust hetjulega. Voru þær, ef eitthvað var, nær því að landa sigri en HK sem var með vel spilandi og öflugt lið.  

Birgir Jónasson þjálfari.