Framhjáhlaup, skemmtilegt myndskeið

Sælar, stúlkur!

Framhjáhlaup er öflugt tæki í sóknarleik í knattspyrnu. Tilgangur með framhjáhlaupi er að auka dýpt í sóknarleik með fríhlaupum þannig að unnt sé að senda knöttinn í opin svæði leikvallar, sem og að opna fyrir svæði í varnarleik mótherjans. Hvað hið síðara atriði varðar, þ.e. að opna svæði hjá mótherja, hefur því ekki ávallt verið gefinn mikill gaumur. Af því tilefni sýni ég ykkur meðfylgjandi myndskeið sem hefur að geyma eitt þekktasta framhjáhlaup knattspyrnusögunnar, en sá leikmaður sem tók framhjáhlaupið fékk þó ekki knöttinn heldur dró til sín varnarmann/-menn, með þeim afleiðingum að glufa opnaðist í varnarleik mótherjans og mark var skorað.

Umrætt atvik átti sér stað í leik Brasilíu og Ítalíu í HM árið 1982. Um var að ræða annað mark Brasilíumanna í leiknum og sjá má á ca annarri mínútu í rúmlega þriggja mínútna löngu meðfylgjandi myndskeiði. Markið er ekkert annað en unaður!

Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=dUkrPNeYcNI.

Þess má geta að Ítalía varð heimsmeistari árið 1982, eftir að hafa hlotið þrjú stig í undanriðli keppninnar, eftir þrjú jafntefli og tvö mörk skoruð.  

Birgir Jónasson þjálfari.