Afturelding - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ætla að fjalla örstutt um leik okkar gegn Aftureldingu. Um hörkuleik var að ræða þar sem við byrjuðum mun betur og vorum betra liðið fyrstu tíu mínútur leiksins. Eftir það komst Afturelding betur inn í leikinn og leikurinn jafnaðist. Afturelding náði að skora eftir ca 20 mínútna leik en það mark kom eftir góða skyndisókn. Eftir markið var Afturelding betra liðið og voru beittari. Við komust aftur inn í leikinn og sóttum í okkur veðið, án þess að ná að skapa okkur afgerandi marktækifæri. Stóð 1-0 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðum. Þó fannst mér við ná að halda knetti betur innan liðs, vinna fleiri návígi, að skallaeinvígjunum undanskildum, en Afturelding náði þó að skapa sér meira fram á við og voru beittari. Þegar á leikinn leið náðum við að pressa Aftureldingu hátt á vellinum og þá litu dagsins ljós okkar bestu marktækifæri sem því miður nýttust ekki. Urðu lyktir því 1-0, Aftureldingu í vil.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðu okkar. Við vorum að leika gegn sterkum mótherja við nokkuð erfiðar aðstæður en Varmárvöllur var í slæmu ásigkomulagi. Mér fannst við leika góðan varnarleik og fá færi gefa á okkur og mér fannst vera þéttleiki í liðinu. Þá náðum við á köflum nokkuð góðum spilaköflum, þá einkum í uppspili sem var mjög gott. Á köflum í leiknum vantaði meiri tengingu við miðvallarleikmann, bæði frá öftustu línu og til hinnar fremstu.

Það sem varð okkur að falli, ef svo má segja, var sóknarleikur okkar en hann var einfaldlega ekki nægjanlega beittur til þess að ná einhverju út úr leiknum. Hann var þó mun betri eftir því sem á leikinn leið. Það sem við vorum í vandræðum með var að það vantaði meiri hreyfanleika liðs á fremsta þriðjungi. Var það af tvennum ástæðum, að mínu mati. Í fyrsta lagi vantaði yfirvegum og klókindi í holunni svonefndu en það svæði vallar er að jafnaði hættulegasta svæðið í uppbyggingu sóknarleiks og þaðan koma yfirleitt flestar stoðsendingar, eins og alkunnugt er. Í öðru lagi fannst mér vanta að við tækjum áhættu með fríhlaupum bak við bakverði og/eða milli miðvarða en of lítið var af þeim hlaupum. Af báðum þessum ástæðum varð sóknarleikur okkar staður. Hvað bæði þessi atriði varðar höfum við æft þau mjög vel í formi smáleikja að undanförnu, þar sem nánast allar æfingar hafa gengið út á að skapa pláss og hreyfa sig án knattar og þá yfirleitt verið leikið með hlutlausum manni/mönnum sem er ætlað að skapa.

Nú þurfum við að halda ótrauðar áfram og halda áfram að bæta leik okkar. Það getum við sannarlega gert en þrátt fyrir að uppskeran sé rýr í stigum talið þá hefur frammistaðan heilt yfir verið góð.   

Birgir Jónasson þjálfari.