Álftanes - Afturelding, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla í örstuttu máli að fjalla um leik okkar við Aftureldingu.

Þrátt fyrir faglegan undirbúning náðum við ekki að byrja leikinn eins og hann var upp settur. Var það svo að nær allan leikinn féllu hlutirnir ekki með okkur. Fyrsta mark leiksins skoraði Afturelding eftir ca 20 leik en á þeim tímapunkti leiks hafði Afturelding fengið nokkur ágæt marktækifæri, þá einkum hálffæri, sem ekki nýttust. Eftir markið einkenndist leikurinn af miklu þófi inni á miðjum vellinum. Ágætir spilakaflar sáust þó inni á milli hjá báðum liðum. Sóknarleikur Aftureldingar var á hinn bóginn mun beinskeyttari og voru þær mun nær því að bæta við en við að skora. Fengum við þó eitt mjög gott marktækifæri sem ekki nýttist. Stóð 0-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik vorum við staðráðin í að bæta ráð okkar (og leik) og ætluðum að pressa hátt á vellinum fyrstu tíu mínútur hálfleiksins. Það plan fór eiginlega út um þúfur þegar við fengum á okkur mark eftir rúmlega fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Eftir það reyndum við að fara framar og sækja og við það opnaðist leikurinn mjög og Afturelding náði að galopna okkur trekk í trekk, einkum þegar leið á leikinn. Við náðum að skapa okkur tvö mjög góð marktækifæri sem ekki nýttust. Marktækifæri Aftureldingar voru þó mun fleiri. Ágætir spilakaflar voru í okkar leik í síðari hálfleik en lengra komust við ekki og urðu lyktir því 0-2.  

Heilt yfir var frammistaðan allt í lagi en úrslitin vonbrigði. Það verður þó að segjast að við töpuðum einfaldlega fyrir betra liði þennan daginn. Það eru ekki einfaldar skýringar á gengi okkar að undanförnu og um ræðir marga samverkandi þætti. Hvaða þættir það eru nákvæmlega er ekki unnt að fullyrða um. Að mínu mati er um hugarfarslegt atriði að ræða þar sem við höfum ekki náð að nýta okkar knattspyrnulegu styrkleika til fullnustu. Tel ég reyndar að ykkar greining sé af sama tagi. Við verðum því að halda áfram að vinna í að kalla fram styrkleikana og láta ekki deigan síga. Mikilvægt er að sætta sig við stöðuna og horfa inn á við en þeim þáttum stjórnum við sjálf.

Birgir Jónasson þjálfari.