Þróttur Vogum - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Þrótt Vogum í gær.

Náðum að sýna allar okkar bestu hliðar og í raun var um að ræða leik kattarins að músinni. Mun minni mótspyrna en búast mátti við og verið hefur í fyrri leikjum við Þrótt, en við höfum leikið við þá tvisvar í vetur. Nú síðast fyrir rúmum mánuði þar sem Þróttur fór með sigur af hólmi eftir spennandi vítaspyrnukeppni, eins og einhverjir kannski muna. 

Frábærir spilakaflar hjá okkur, mikið af marktækifærum og uppskárum góð mörk í öllum regnbogans litum. Uppspilið var gott, sóknarleikurinn almennt leiftrandi og snarpur og mér fannst varnarleikurinn einnig vera góður. Vorum samt að fá á okkur marktækifæri, eðlilega þar sem sótt var á mörgum mönnum. Sveinn Hjörtur með virkilega góðan leik í markinu og stóð svo sannarlega fyrir sínu.

Mörk okkar urðu allnokkur en þau gerðu Valur 5, Ívar 2, Gunnar 2, Emilía 1 og Mist 1 (er vonandi ekki að gleyma neinum).

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna. Að sjálfsögðu hefði verið skemmtilegra að fá aðeins jafnari leik en svona er þetta stundum.

Birgir Jónasson þjálfari.