Álftanes - FH 2, stutt umfjöllun um kappleik í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti

Sæl, öllsömul.

Nokkur orð um leik B-liðsins í dag.

Hörkuleikur og í járnum framan af. Lítið af opnum færum og mikill barningur, einkum inni á miðsvæðinu. FH stúlkur líkamlega sterkari og gerðu okkur erfitt fyrir, auk þess sem völlurinn var hrímaður og sleipur. Náðum ekki upp miklu spili og á köflum gekk knötturinn fram og til baka. Rétt fyrir leikhlé náðum við að skora fyrsta mark leiksins, en markið hefði ekki getað komið á betri tíma. Embla skoraði markið.

Í síðari hálfleik vorum við ívið sterkara liðið og náðum að bæta við tveimur góðum mörkum. Þar voru Heiða Lóa og Eva María á ferð. Leikurinn opnaðist aðeins þegar á leið og FH var í raun nær því að minnka muninn en við að bæta við. Sigur okkar var þó fyllilega sanngjarn, en nokkuð stór.

Heilt yfir ég ánægður með frammistöðuna. Náðum að setja þrjú góð mörk, tvö komu eftir „gamm“ og það þriðja eftir frábæran samleik. Skrýtið að segja frá því en í síðasta leik fannst mér við hafa meiri stöðulega yfirburði en sá leikur tapaðist. Í þessum leik var jafnræði en samt 3-0 sigur. Allar stúlkur fengu að spila og við náðum að víxla leikmönnum í stöðum og rúlla þessu vel áfram. Við fengum ekki mörg marktækifæri, mun færri en í síðasta leik, en nú nýttust þau færi sem fengust afar vel. Það sem tökum með okkur úr leiknum er baráttugleðin og viljinn. Mér fannst við vera undir líkamlega í leiknum en við unnum það upp með meiri gæðum en mótherjinn, betri liðsheild, betra skipulagi og áræðni. Frábær sigur hjá ykkur stúlkur!

Birgir Jónasson þjálfari.