Álftanes - Fjölnir: 2-1, leikur í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um leik A-liðsins í Íslandsmóti við Fjölni sem fram fór á Bessastaðavelli við góðar aðstæður. 

Skemmst er frá að segja að um hörkuleik var að ræða sem var nánast í járnum allan tímann. Nokkur munur var á liðunum úti á vellinum, spilalega, þar sem okkar stúlkur voru mun betur spilandi og héldu knetti miklu betur innan liðsins en Fjölnir. Fjölnisstúlkur voru hins vegar stórar og stæðilegar og engu líkara var en okkar stúlkur væru hálfhræddar við þær.

Fyrsta mark leiksins kom í fyrri hálfleik en þar var Selma á ferð með gott mark. Undir lok hálfleiksins náðu Fjölnisstúlkur að jafna metin með þrumuskoti utan að velli. Þannig stóð svo í leikhléi, 1-1. 

Í síðari hálfleik voru okkar stúlkur mun betri en Fjölnisstúlkur þó hættulegar, einkum vegna spyrnugetu. Sigurmark leiksins kom þegar nokkrar mínútur lifðu eftir af leiknum en þar var Selma aftur á ferð eftir stórsókn okkar stúlkna. Þar við sat og fyrsti sigur á Íslandsmóti staðreynd.

Heilt yfir var ég afar ánægður með spilamennskuna og minnti hún á þá spilamennsku sem einkenndi stúlkurnar í haust og framan af vetri þar sem léttleikinn var í fyrirrúmi.  

Birgir Jónasson þjálfari. 

Breyttur æfingatími í dag, miðvikudag, og leikur í Íslandsmóti á föstudag

Sæl, öllsömul!

Vegna kappleikja í Íslandsmóti í dag, sem fram fara á grasvellinum, hefst æfing ekki fyrr en kl. 18:15 í dag, miðvikudag.

Þá er athygli vakin á því að A-liðið á leik í Íslandsmóti á föstudag þegar att verður kappi við Fjölni. Leikið verður á Álftanesi og hefjast leikar kl. 17. Reynt var að fá leik fyrir B-liðið einnig sama dag en það hentað Fjölni ekki að þessu sinni. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Æfingin í dag er kl. 17

Sæl, öllsömul!

Vegna frestunar kappleiks hjá 4. flokki drengja í dag færist æfingatími aftur til rétt horfs, þ. e. kl. 17 í dag, miðvikudag.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Fyrsti leikur í Íslandsmóti - stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Við þjálfarar ætlum að fara örfáum orðum um fyrsta leik í Íslandsmóti sem fram fór á sunnudag. Att var kappi við Breiðblik 2 og fóru leikar fram í Fagralundi í Kópavogi.

Skemmst er frá að segja að nokkuð var á brattann að sækja hjá okkar stúlkum sem byrjuðu leikinn ekki nægjanlega vel og fengu á sig mark snemma leiks. Nokkurt jafnræði var með liðum úti á vellinum en Blikastúlkur sköpuðu sér hins vegar mun fleiri marktækifæri og náðu að skora eitt mark til viðbótar í fyrri hálfleik. Stóð því 2-0 í leikhléi, Breiðabliki í vil.

Í síðari hálfleik voru okkar stúlkur aðeins beinskeyttari og náðu að skapa sér nokkur góð marktækifæri en inn vildi knötturinn ekki. Það voru svo Blikar sem náðu að skora eitt mark í síðari hálfleik og urðu lyktir leiksins því 3-0, Blikum í vil. Verða sú úrslit að teljast nokkuð sanngjörn miðað við gang leiksins. 

Heilt yfir voru stúlkurnar nokkuð frá sínu besta, einkum sóknarlega, og of lítil ógnun var fram á við. Það sem einkum skildi þó liðin að voru grunnatriði eins og sendingar, móttaka knattar og staðan maður gegn manni, en þar voru gæðin meiri hjá Blikum. Engin ástæða er þó til þess að örvænta og eiga stúlkurnar mikið inni.     

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.