Æfingar í páskafríi

Sæl, öllsömul!

Það athugast að æfingar verða á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, þ.e. 14. til 16. apríl.

Frí verður gert á æfingum yfir páska en æfingar munu svo hefjast á ný þriðjudaginn 22. apríl.  

Birgir þjálfari.

HK - Álftanes: 6-1

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleik HK og Álftaness sem fór á þriðjudag. Leikið var á HK velli í 11 manna knattspyrnu. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar umræddan dag voru prýðilegar og eins og best verður kosið á þessum árstíma. 

Skemmst er frá að segja að nokkuð var á brattann að sækja hjá okkar stúlkum, einkum í upphafi leiks. Fyrsta mark HK kom nokkuð eftir nokkra mínútna leik en eftir það jafnaðist leikurinn nokkuð. HK stúlkur komu nokkuð hátt upp á völlinn og við það fengu okkar stúlkur nokkur úrvalsmarktækifæri sem því miður ekki nýttust. Var það einna helst markvörður HK sem reyndist óþægur ljár í þúfu en hann varði nokkrum sinnum í leiknum stórglæsilega. Náði HK að skora tvö mörk til viðbótar í fyrri hálfleik og stóð því 3-0 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var nokkuð jafn, framan af, en þegar á leið náði HK aftur yfirhöndinni. Síðari hlutann í síðari hálfleik náði HK upp góðri pressu og náði að setja þrjú mörk í röð með skömmu millibili. Í blálokin náðu okkar stúlkur að svara fyrir sig en þar var Elsa með gott mark. Þar við sat og urðu lyktir leiks 6-1, HK í vil. Heilt yfir var ég sáttur við leik okkar stúlkna en þess ber að geta að í okkar lið vantaði allmargar frambærilegar stúlkur og það munar um minna í svo fámennum hóp. Varnarlega stóð liðið sig nokkuð vel en eilitla ógnun vantaði fram á við, einkum við að nýta þau færi sem gáfust. Ágætir spilakaflar voru í leiknum en liðið hefði mátt halda knetti eilítið betur innan liðs.

Birgir þjálfari. 

Æfingaleikur á morgun, þriðjudag

Sæl, öllsömul!

Á morgun, þriðjudag, er fyrirhugaður æfingaleikur við HK í 11 manna knattspyrnu. Hefjast leikar kl. 16:30 en leikið verður í Fagralundi í Kópavogi.

Allar stúlkur flokksins eru boðaðar og mögulega einhverjar úr 5. flokki. Stúlkur þurfa að mæta um kl. 16 í Fagralund, fullbúnar til leiks. Gengið er út frá að allar stúlkur eigi keppnisskyrtu.

Öll forföll ber að tilkynna, það auðveldar skipulagningu.

Birgir þjálfari.

Æfing í dag, föstudag

Sæl, öllsömul!

Athygli er hér vakin á því að í dag, föstudaginn 28. mars, verður æfing á sparkvellinum frá kl. 16 til 17. Um verður að ræða spilaæfingu og mun Guðbjörn Harðarson annast hana. 

Birgir þjálfari.